Aron krækti í tvö gull í viðbót

Aron Örn Stefánsson kampakátur í Laugardalslauginni um helgina.
Aron Örn Stefánsson kampakátur í Laugardalslauginni um helgina. mbl.is/Hari

Aron Örn Stefánsson úr SH krækti í tvenn gullverðlaun til viðbótar á lokadegi Íslandsmeistaramótsins í sundi sem er að ljúka í Laugardalslauginni.

Aron Örn tryggði sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í næsta mánuði í morgun þegar hann keppti í undanrásum 100 metra skriðsunds og í úrslitasundinu vann hann á tímanum 49,83 sekúndum. Annar varð Davíð Fannar Ragnarsson á 53,14 sekúndum og þriðji Kristján Gylfi Þórisson á 53,34 sekúndum.

Aron kom einnig fyrstur í bakkann í 50 metra bringusundi á tímanum 28,61 sekúndu, en annar varð Baldvin Sigmarsson á 30,17 sekúndum og þriðji Sævar Berg Sigurðsson á 30,52 sekúndum.

Aron Örn er því búinn að vinna til fimm gullverðlauna í einstaklingsgreinum eins og Hrafhildur Lúthersdóttir og eru þau sigursælust um helgina. Aron hefur þar að auki unnið eitt silfur, í 50 metra flugsundi.

Eygló með sitt annað gull

Eygló Ósk Gústafsdóttir hefur verið að glíma við meiðsli en kom til landsins til þess að keppa á mótinu. Hún vann gull í 200 metra baksundi á föstudag og í dag bætti hún við gulli í 100 metra baksundi þegar hún kom í bakkann á tímanum 1:00,20 mínútum sem jafnframt er lágmark inn á EM. Eygló hafði áður unnið silfur í 50 metra baksundi sem einnig var undir EM-lágmarki, en þá grein vann Ingibjörg Kristín Jónsdóttir.

Önnur í 100 metrunum í dag varð Katarína Róbertsdóttir á 1:04,46 mínútum og er það lágmark inn á Norðurlandameistaramót 17 ára og yngri. Bronsið fékk svo Stefanía Sigurþórsdóttir á 1:06,08 mínútum.

Af öðrum úrslitum á lokadeginum í dag má nefna að hin 16 ára gamla Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH vann 100 metra skriðsund á tímanum 57,24 sekúndum sem er lágmark fyrir Norðurlandameistaramót 16 ára og yngri. Þar varð Kristín Helga Hákonardóttir úr Breiðabliki fjórða á 59,81 sekúndu, sem er lágmark fyrir EM 13 ára og yngri.

Í 100 metra baksundi karla vann Kolbeinn Hrafnkelsson á tímanum 54,18 sekúndum, en Brynjólfur Óli Karlsson vann silfur á 56,96 sekúndum sem er lágmark inn á Norðurlandameistaramót 16 ára og yngri.

Brynjólfur hefur unnið sex verðlaun á mótinu; gull í 200 metra baksundi og 200 metra flugsundi, silfur í 200 metra skriðsundi, 100 metra baksundi og 100 metra fjórsundi og brons í 50 metra baksundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert