Uppskeran er sæt

Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Guðmundur Kári Þorgrímsson glaðir í bragði …
Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Guðmundur Kári Þorgrímsson glaðir í bragði í keppninni á EM í morgun. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Eftir að allir hafa lagt mikinn metnað og langan tíma í undirbúninginn þá er uppskeran sæt,“ sagði Guðmundur Kári Þorgrímsson, einn liðsmanna blandaðrar sveitar Íslands í hópfimleikum eftir að hafa tekið við bronsverðlaunum ásamt samherjum sínum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Portúgal skömmu fyrir hádegið.

„Það er ótrúlega gaman að enda keppni á dansi og í þeirri fegurð sem í honum er, brosa til Íslands, áhorfenda og dómara sem allir horfa á okkur. Það er engu líkt,“ sagði Guðmundur Kári og bætti við að hann hefði ekki fundið fyrir neinni pressu fyrir lokaatriðið þótt ljóst væri að íslenski hópurinn yrði að ná framúrskarandi atriði til þess að komast upp fyrir norsku sveitina og krækja í bronsverðlaunin.

„Eina pressan er bara sú að gera eins vel og mögulegt er hverju sinni. Við sem erum inni á vellinum fylgjumst ekkert með stigagjöfinni eða hver staðan er. Við viljum ekki láta það hafa áhrif á okkur. Okkar aðal er að gera okkar besta hver sem staðan er, dansa vel, brosa og hafa góða útgeislun,“ sagði Guðmundur Kári sem vann í dag sín önnur bronsverðlaun á EM en hann var í blandaðri sveit unglinga sem vann brons á EM í Slóveníu fyrir tveimur árum.

„Það er ótrúlega gaman að vinna önnur bronsverðlaun á EM. Fyrirfram vissi ég ekki við hverju mátti búast því ekki höfðum við hugmynd um hvort hin liðin fimm í úrslitum voru nærri sína besta eða ekki í undankeppninni,“ sagði Guðmundur Kári Þorgrímsson, einn liðsmanna blandaðrar sveitar fullorðinna eftir að sveitin vann til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Odivela í Portúgal nú skömmu fyrir hádegið.

Hluti blönduðu sveitarinnar í keppninni í morgun á EM í …
Hluti blönduðu sveitarinnar í keppninni í morgun á EM í Portúgal. Ljósmynd/Kristinn Arason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert