Staðan erfið hjá Fjölni

Karlalið Fjölnis í handknattleik tryggði sér á dögunum sæti í …
Karlalið Fjölnis í handknattleik tryggði sér á dögunum sæti í úrvalsdeild. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ungmennafélagið Fjölnir á í fjárhagserfiðleikum og nýtur félagið nú liðsinnis Íþróttabandalags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar með það fyrir augum að rétta úr kútnum.

Fjölnir heldur úti fjölda íþróttadeilda, alls 11, og er því í mörg horn að líta. Hjá Fjölni eru iðkaðar knattspyrna, körfuknattleikur, handknattleikur, frjálsar íþróttir, íshokkí, fimleikar, listskautar, karate, sund, skák og tennis.

Í samtali við mbl.is sagði Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri ÍBR, stöðuna ekki vera þannig að taka þurfi Ungmennafélagið Fjölni til gjaldþrotaskipta:

„Nei, nei, alls ekki.“

Úr leik hjá kvennaliði Fjölnis í körfuknattleik á nýafstöðnu tímabili.
Úr leik hjá kvennaliði Fjölnis í körfuknattleik á nýafstöðnu tímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki búin að taka yfir reksturinn

Sömuleiðis væri það ekki svo að ÍBR sé búið að taka rekstur félagsins yfir.

„Nei, við erum ekki búin að taka yfir neinn rekstur eða neitt slíkt. Það er algjörlega skýrt. Það er ljóst að það eru einhverjir erfiðleikar varðandi fjármál félagsins um þessar mundir.

Við hjá ÍBR og Reykjavíkurborg erum að reyna að hjálpa til við að finna út leiðir til þess að rétta úr kútnum. Það er einfalda svarið,“ útskýrði Frímann Ari.

Ekki náðist í formann né framkvæmdastjóra Ungmennafélags Fjölnis við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert