Berst við allar þær bestu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR hefur í kvöld leik á sínu fjórða móti á bandarísku LPGA-mótaröðinni í golfi, KIA Classic mótinu, aðeins nokkrum dögum eftir að síðasta móti lauk.

Leikið er í Carlsbad í Kaliforníu og er Ólafía í ráshópi með Regan De Guzman frá Filippseyjum og Kris Tamulis frá Bandaríkjunum. Þær hefja leik kl. 20.50 að íslenskum tíma.

KIA Classic mótið er síðasta mótið fyrir fyrsta risamót tímabilsins, ANA Inspiration, og þess vegna leggja bestu kylfingar heims mikla áherslu á að vera með í Carlsbad til að undirbúa sig. Þannig eru 15 efstu kylfingar heimslistans með í ár, og 100 efstu kylfingar peningalistans á LPGA-mótaröðinni í fyrra. Þá eru þær Brittany Lincicome, Jang Ha-na, Amy Yang, Inbee Park og Anna Nordqvist, sigurvegarar LPGA-mótanna í ár, allar með. Ólafía er í 499. sæti heimslistans, eftir að hafa verið í 614. sæti í byrjun árs, og í 95. sæti peningalistans í ár með 11.788 Bandaríkjadali.

Verðlaunaféð sem í boði er á KIA Classic er hærra en á þeim þremur mótum sem Ólafía hefur spilað á til þessa á tímabilinu. Alls eru 1,8 milljónir Bandaríkjadala í boði, jafnvirði um 200 milljóna króna, og fær sigurvegarinn um 30 milljónir króna í sinn hlut. Ólafía fékk peningaverðlaun á fyrstu tveimur mótum ársins eftir að hafa orðið í 30. og 69. sæti, en hún rétt missti af því að komast í gegnum niðurskurðinn á síðasta móti í Phoenix, þar sem hún lék 36 holur á -3 höggum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert