Schauffele efstur - handtakan sló Scheffler ekki út af laginu

Xander Schauffele hefur leikið vel á Valhalla.
Xander Schauffele hefur leikið vel á Valhalla. AFP/Andrew Redington

Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele er áfram efstur eftir tvo fyrstu hringina á PGA-meistaramótinu í golfi sem nú stendur yfir á Valhalla-vellinum í Kentucky í Bandaríkjunum.

Schauffele, sem setti vallarmet á fyrsta hringnum þegar hann lék á 62 höggum, átti aðeins hefðbundari hring í dag en lék hann á 68 höggum. Hann er því samtals á tólf höggum undir pari vallarins.

Forysta Schauffele er dottin niður í eitt högg því Collin Morikawa er annar á 11 undir pari eftir að hafa leikið á 65 í dag og 66 í gær.

Þriðji Bandaríkjamaðurinn við toppinn er Sahith Theegala sem er á 10 höggum undir pari en á eftir síðustu þrjár holurnar á öðrum hring.

Scottie Scheffler, landi þeirra og efsti maður heimslistans, lét ekki handtöku í dag slá sig út af laginu. Hann lék á 66 höggum í dag, fimm undir pari, og deilir fjórða sætinu með þremur öðrum á samtals níu höggum undir pari.

Scheffler var handtekinn fyrir að sinna ekki viðvörunum lögreglu og reyna að keyra framhjá slysstað þar sem hjólreiðamaður lést rétt hjá vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert