„Höldum ef til vill að við séum of góðir“

Alexander Örn Júlíusson í leiknum í kvöld.
Alexander Örn Júlíusson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

Alexander Örn Júlíusson sagði Valsmenn hafa verið full værukæra þegar liðið mætti Gróttu í Olís-deildinni í kvöld. Sagði hann þá hættu hafa verið til staðar eftir góðan bikarsigur á ÍBV í Vestmannaeyjum á dögunum. 

„Við vissum alltaf að þetta yrði mjög hættulegur leikur eftir að hafa unnið mjög sterkan sigur í síðasta leik. Hættan var sú að við kæmum helst til værukærir í þennan leik og sem varð svo kannski bara raunin. Þeir voru betri en við á öllum sviðum í kvöld og virtust vera betur undirbúnir. Ef til vill slökum við á vegna þess að við höldum að við séum of góðir,“ sagði Alexander ákveðið en spurður um hvort varnarleikur Gróttu hafi reynst of sterkur til að Valsmenn gætu fundið leiðir í gegn sagði Alexander að svo ætti ekki að vera.

„Þetta er mikið til sambærileg vörn og Eyjamenn spila þannig að við hefðum heldur betur átt að vera betur undirbúnir fyrir hana. Ég held að það hafi bara vantað herslumuninn. Við hefðum þurft að fara í okkar aðgerðir af fullum krafti og framkvæma þær betur. Ég held að það hafi helst klikkað hjá okkur,“ sagði Alexander við mbl.is að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert