„Fáránlega öflugt“

Birkir Benediktsson.
Birkir Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórskyttan Birkir Benediktsson fór hamförum þegar topplið Aftureldingar náði í tvö stig til Vestmannaeyja í 8. umferð Olís-deildarinnar í handbolta. Birkir skoraði 13 mörk í 16 skotum í 27:26 sigri Aftureldingar.

Morgunblaðið tekur Birki sérstaklega fyrir að lokinni 8. umferð.

Birkir er einungis tvítugur þótt liðin séu liðlega tvö ár síðan hann vakti athygli í efstu deild. Að skora 13 mörk í spennuleik á erfiðum útivelli í Vestmannaeyjum er ekki fyrir hvern sem er og vísbending um að Birkir gæti nú verið að springa út sem leikmaður.

„Ég myndi segja að þetta væri merki um þroska hans sem leikmanns. Þrátt fyrir ungan aldur býr hann yfir nokkurri reynslu. Hann er á sínu þriðja ári hjá Afturelding og alltaf með nokkuð stórt hlutverk sem stækkar enn meira í vetur. Þessi frammistaða segir einnig nokkuð um andlegan styrk. Hann hefur alltaf verið líkamlega sterkur og kröftugur en nú er andlegi styrkurinn að aukast sem og leikskilningurinn,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, þegar Morgunblaðið ræddi við hann um Birki. Einar sagðist ekki hafa áttað sig almennilega á markasúpu Birkis í Eyjum fyrr en hann fékk tölfræðina í hendurnar.

„Hann var ótrúlegur í þessum leik. Ég fattaði ekki fyrr en eftir leikinn hversu frábær frammistaðan var. Hann skoraði mikið í upphafi leiks og svo komu mörkin með reglulegu millibili. Þegar við kíktum á tölfræðina þá var hann með 13 mörk í 16 skotum sem er fáránlega öflugt. Birkir byrjaði hins vegar tímabilið illa og var svekktur yfir frammistöðu sinni gegn Selfossi í fyrsta leik, eins og liðið allt. Síðan þá hefur hann verið frábær, skorar mikið og spilar lykilhlutverk í vörn.“

Sjá allt viðtalið við Einar Andra þar sem hann ræðir um Birki í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert