Mjög mikilvægur liðssigur

Karen Knútsdóttir á æfingu landsliðsins í vikunni.
Karen Knútsdóttir á æfingu landsliðsins í vikunni. mbl.is/Eggert

„Mér fannst bara mikilvægast að við skyldum vinna leikinn og taka tvö stig. Þetta var liðssigur þar sem allir gerðu sitt, vörnin var góð og Guðrún góð í markinu,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, eftir 28:24-sigur á Austurríki í forkeppni HM í kvöld.

Þetta var fyrsti leikurinn í riðlinum en í honum eru einnig Færeyjar og Makedónía, en leikið er í Færeyjum. Tvö efstu liðin komast áfram og taka þátt í umspili um sæti á HM á næsta ári:

„Þetta var mjög mikilvægur sigur. Við erum ekkert búnar að hugsa um hina leikina og vitum lítið um andstæðingana, en okkur sýnist að Makedónía sé með talsvert breytt lið frá því að við mættum þeim síðast. Þær eru með marga unga leikmenn en við sjáum þær betur á eftir,“ sagði Karen, en leikur Færeyja og Makedóníu var að hefjast þegar viðtalið var tekið.

Leikur Íslands og Austurríkis var jafn lengst af en Ísland reyndist sterkara í lokin:

„Við byrjuðum vel, svo kom smáhikst en við náðum aftur að jafna fyrir hálfleik. Svo var þetta svipað í seinni hálfleik, en við gerðum þetta betur í lokin og lönduðum sigri,“ sagði Karen, sem var tekin úr umferð hluta af seinni hálfleik: „Við áttum ekki von á því svo það kom kannski smáhikst, en við unnum vel úr því fannst mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert