„Fagnað fram eftir vikunni“

Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Þetta var afar kærkomið, hreinlega frábært,“ sagði Arnór Atlason, fyrirliði danska meistaraliðsins í handknattleik, Aalborg Håndbold, í gærmorgun, en liðið varð danskur meistari á sunnudaginn eftir sannfærandi sigur, 32:25, á Skjern í síðari úrslitaleik liðanna á heimavelli Skjern.

Arnór er einn fjögurra Íslendinga í röðum Álaborgarliðsins, sem síðast varð danskur meistari fyrir fjórum árum. Auk Arnórs er Aron Kristjánsson þjálfari og leikmennirnir Janus Daði Smárason og Stefán Rafn Sigurmannsson. Aron varð nú í þriðja sinn danskur meistari sem þjálfari, en hann stýrði Kolding/Köbenhavn til sigurs í dönsku deildinni tvö ár í röð, 2014 og 2015.

Liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í Álaborg á fimmtudaginn þar sem Norðmaðurinn Sander Sagosen jafnaði metin á síðustu sekúndu. „Við fórum illa að ráði okkar í þeim leik, vorum með forystu í 59 mínútur en vorum nærri því búnir að tapa leiknum á síðustu mínútunni,“ sagði Arnór og bætti við að aldrei hefði hins vegar leikið vafi á því í leiknum á sunnudaginn hvort liðið væri sterkara og ætti danska meistaratitilinn meira skilinn.

„Skjern-menn voru rosalega ánægðir með jafntefli í Álaborg á fimmtudaginn og gleymdu sér sennilega aðeins í gleðinni þegar kom að síðari leiknum,“ sagði Arnór og bætti við að fyrir úrslitaleikinn á sunnudaginn hefði Aalborg aðeins unnið Skjern einu sinni í sex viðureignum á keppnistímabilinu. „Eini sigur okkar var fyrr í úrslitakeppninni, í leik sem Skjern mátti tapa. Þar af leiðandi voru líkurnar ekki endilega með okkur á sunnudaginn. Við vorum hins vegar rosalega flottir þegar á hólminn var komið. Það tekur enginn frá okkur,“ sagði Arnór.

Sjá allt viðtalið við Arnór í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert