Þrír búnir og 19 eftir

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.isÁrni Sæberg

„Ég er sáttur með að vera kominn með stig en ég hefði viljað vinna leikinn. Stjarnan vildi það auðvitað líka þannig að eigum við ekki að vera sanngjarnir og segja að þetta var sennilega sanngjarnt,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 27:27 jafntefli gegn Stjörnunni í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Afturelding var yfir allan fyrri hálfleikinn en tókst þó ekki að slíta sig frá þrjóskum leikmönnum Stjörnunnar og var munurinn aldrei meiri en tvö stig. Var það eitthvað sem réði úrslitunum í kvöld?

„Já, ég er sammála því. Það hefði hjálpað að komast kannski 3-4 mörkum yfir snemma en svo erum við að fá tækifæri til að komast þrem yfir og klikka á dauðafærum.“

Einar hrósaði andstæðingnum og viðurkenndi að hafa haft smá áhyggjur í síðari hálfleik þegar liðin skiptust á að taka forystuna. Afturelding er aðeins með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar en nóg er eftir af mótinu.

„Stjarnan er með gott lið og maður hefur alltaf áhyggjur en þetta var hörkuleikur. Nú tökum við þetta bara leik fyrir leik, það eru þrír búnir og 19 eftir. Við höldum bara áfram, reynum að bæta okkur og horfum til næsta leiks.“

Afturelding heimsækir Fram á fimmtudaginn áður en landsleikjahlé skellur á, er ekki mikilvægt fyrir sjálfstraustið að vinna þann leik?

„Sálræna hliðin er bara mjög sterk hjá okkur og við höfum ekki áhyggjur, við höfum spilað við mjög góð lið hingað til en við ætlum okkur sigur í hverjum leik og á fimmtudaginn verður bara hörkuleikur,“ sagði Einar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert