ÍBV sneri taflinu við á lokamínútunum

Elías Bóasson lyftir sér upp í Austurbergi í dag.
Elías Bóasson lyftir sér upp í Austurbergi í dag. mbl.is/Golli

ÍR tók á móti ÍBV í Austurbergi í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Heimamenn voru yfir nær allan leikinn en á 58. mínútu sneru Eyjamenn taflinu við og unnu að lokum 25:27.

Heimamenn fóru mikið betur af stað og voru mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik, 8:3, en ÍBV skoraði aðeins þrjú mörk á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Arnar Pétursson, þjálfari Eyjamanna, tók þá leikhlé og við það réttist spilamennska liðsins aðeins af. Í hálfleik var staðan 13:11, heimamönnum í vil, en Grétar Ari Guðjónsson varði oft á tíðum afar vel. Í liði gestanna var Agnar Smári Jónsson með sex mörk fyrir hlé en hann hélt sóknarleik liðsins hreinlega uppi.

ÍR-ingar héldu áfram að hafa yfirhöndina í upphafi síðari hálfleiks og var Bergvin Þór Gíslason þar í aðalhlutverki en hann skoraði sjö mörk í leiknum. Gestirnir voru þó aldrei langt undan og náðu smátt og smátt að minnka muninn og var síðasta korterið æsispennandi. ÍBV fékk ótal tækifæri til að jafna leikinn en þeim gekk það jafn illa og heimamönnum að stækka forskotið. Á 58. mínútu skoraði Grétar Þór Eyþórsson í tvígang fyrir gestina, fyrst til að jafna metin og síðan til að koma ÍBV yfir í fyrsta sinn í leiknum síðan í stöðunni 0:1 á fyrstu mínútunni.

ÍR-ingar eru áfram í 7. sætinu með sex stig og ÍBV áfram í því 4. en nú með 10 stig og fyrir neðan Hauka og FH á markatölunni einni.

ÍR 25:27 ÍBV opna loka
60. mín. Sveinn Andri Sveinsson (ÍR) skýtur framhjá Framhjá! 50 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert