Þórir pirraður eftir sigurinn á Spáni

Þórir Hergeirsson hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari Noregs og …
Þórir Hergeirsson hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari Noregs og er nú kominn með liðið í 8-liða úrslit HM í Þýskalandi. AFP

Þórir Hergeirsson líkti mótshöldurum HM kvenna í handbolta við jólasveina þegar hann ræddi við blaðamenn eftir sigur sinna kvenna í norska landsliðinu gegn Spáni í gær, 31:23, í 16-liða úrslitum mótsins.

Þórir er óánægður með það hve ólíkt þægilegri undirbúning næstu andstæðingar Noregs, Rússar, fá fyrir leik liðanna á morgun. Leikið verður í Magdeburg, á sama stað og Rússar léku sinn leik í 16-liða úrslitunum, á meðan að norska liðið þurfti að ferðast í rútu frá Leipzig í einn og hálfan tíma í gær, skrá sig inn á nýtt hótel og koma sér fyrir á nýjum stað.

„Þetta er alveg vonlaust hjá mótshöldurum, og svona hefur þetta verið alla vikuna,“ sagði Þórir á fréttamannafundi, og bætti við í samtali við NTB Scanpix eftir fundinn að mótshaldararnir í Þýskalandi væru eins og „jólasveinar“ (nisser).

Nora Mörk skoraði 11 mörk fyrir Noreg í gær en Þórir vildi ekkert vera að hrósa henni of mikið eftir leik:

„Hún átti líka sex misheppnaðar sendingar. Ég er mjög ánægður með Noru og ánægður með liðið, en við fórum að taka of mikla áhættu í okkar spili of snemma í leiknum. Þetta tókum við fyrir í hléi. Nora er góður leikmaður sem við viljum svo sannarlega hafa í liðinu, um það er enginn vafi. Við viljum hafa hana í okkar liði, en hún mætti róa sig aðeins niður stundum,“ sagði Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert