Viggó með nýjan samning – Hannes í skýjunum

Viggó Kristjánsson.
Viggó Kristjánsson. Ljósmynd/handball-westwien.at

Viggó Kristjánsson hefur framlengt samning sinn við austurríska handknattleiksfélagið West Wien og er hann nú samningsbundinn til ársins 2020. Hann má þó fara ári fyrr ef stór félög í Þýskalandi falast eftir kröftum hans.

Hjá West Wien leikur Viggó undir stjórn Hannesar Jóns Jónssonar, en Viggó kom til liðsins síðastliðið sumar eftir að hafa leikið eitt ár með Randers í Danmörku. Á þeim 18 mánuðum sem hann hefur verið í atvinnumennsku hefur hann sannarlega slegið í gegn og er Hannes í skýjunum að halda Viggó áfram.

„Viggó hefur tekið stórkostlegum framförum í vetur á öllum sviðum, bætt sig gríðarlega varnarlega, er á frábærri leið með líkamlega þáttinn og sóknarlega er hann alltaf hættulegur og gerir mennina í kringum sig betri. Hann er vinnusamur með eindæmum og með hugarfar sem allir vilja hafa í sínu liði. Það er að mínu mati ekki spurning um hvort heldur hvenær hann kemur inn í íslenska landsliðið,“ sagði Hannes við mbl.is um nýja samninginn.

Það er því ljóst að Hannes mun halda báðum Íslendingunum í liði sínu næsta vetur, en Ólafur Bjarki Ragnarsson er einnig á mála hjá West Wien.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert