Þakklát að fá að upplifa þetta

Lovísa Thompson átti mjög góðan leik í kvöld.
Lovísa Thompson átti mjög góðan leik í kvöld. mbl.is/Hari

„Ég er mjög glöð og þetta er langþráður sigur. Ég er búin að bíða eftir þessu ótrúlega lengi. Ég man varla hvenær ég var síðast í liði sem vann keppnisleik. Það var örugglega í apríl," sagði hæstánægð Lovísa Thompson eftir kærkominn 24:22-sigur Gróttu á Fjölni í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Sigurinn er sá fyrsti hjá Gróttu í 13 leikjum í deildinni. 

Með sigrinum jafnaði Grótta lið Fjölnis á stigum og eru þau einu stigi frá Selfossi. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem við héldum ró út leikinn þó munurinn hafi verið 1-2 mörk allan tímann. Við náðum að spila okkar kerfi og aginn var mikill. Þetta var algjör úrslitaleikur upp á framhaldið og hvort við viljum halda sæti okkar í þessari deild eða ekki. Við eigum Selfoss næst og það er annar úrslitaleikur."

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Lovísa tvívegis orðið Íslandsmeistari með Gróttu. Nú liggur landið hins vegar öðruvísi og er hörð fallbarátta hlutskipti Gróttu í ár. 

„Það er búið að vera upp og niður, eins og þegar manni gengur vel. Það eru líka hæðir og lægðir þegar gengið er betra. Ég er pínu þakklát að fá að upplifa þetta og vera ekki endalaust á toppnum. Það styrkir mig sem leikmann upp á framhaldið."

Hún segist taka því fagnandi að vera í leiðtogahlutverki hjá liðinu. 

„Ég tek því hlutverki fagnandi og þarf að halda áfram að vera góð fyrirmynd og góður leiðtogi. Ég er að læra eins og allir hinir," sagði Lovísa að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert