Þetta er gamla góða íþróttasálfræðin

Sveinn Þorgeirsson átti fínan leik þrátt fyrir tap.
Sveinn Þorgeirsson átti fínan leik þrátt fyrir tap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Þorgeirsson, leikmaður Fjölnis, var svekktur eftir 31:28-tap gegn Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Þrátt fyrir tapið var hann ánægður með margt hjá Fjölnismönnum í kvöld.

„Á kafla í fyrri hálfleik gerum við okkur seka um tæknimistök í vörn og sókn og við finnum að þeir ná yfirtökum í leiknum. Við náðum síðan góðum takti og fórum að þrýsta þá í mistök. Þá náðum við áhlaupi og góðu sjálfstrausti. Tilfinningin var góð þá og við áttum helling í þetta."

„Við fengum of mörg mörk á okkur. Við náðum ekki taktinum sem við þurftum að ná í varnarleikinn og markmennirnir hjá okkur fundu fyrir því. Við hefðum mátt brjóta meira á þeim. Donni [Kristján Örn Kristjánssonvar sjóðandi heitur í seinni hálfleik og við áttum skilið eitthvað úr þessum leik."

Fjölnir er fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni, þegar aðeins fjórir leikir eru eftir. Sveinn vill að Fjölnismenn haldi ró sinni, þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Við getum ekki hugsað um það og breytt nálguninni á leikina. Þetta er gamla góða íþróttasálfræðin og við megum ekki gera of mikið úr þessu. Við viljum ná að slaka á fyrir leikina því stundum höfum við verið of stressaðir og gert of mikið af mistökum. Við verðum að halda yfirvegaðri nálgun því við höfum verið góðir í síðustu þremur, fjórum leikjum. Nú þarf að fara að uppskera meira," sagði Sveinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert