Skotin virkuðu mjög vel

Kári Kristján Kristjánsson var oft í hörðum slag við varnarmenn …
Kári Kristján Kristjánsson var oft í hörðum slag við varnarmenn Turda í leiknum í Vestmannaeyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég var búinn að skoða markverði Turda mjög vel fyrir leikinn og vissu að þeir væri frekar stórir og þungir. Ég hagaði skotum mínum í samræmi við það og þau virkuðu vel,“ sagði Theodór Sigurbjörnsson, leikmaður ÍBV, sem skoraði 13 mörk fyrir liðið í þriggja marka sigri, 31:28, á rúmenska liðinu Turda í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í Vestmannaeyjum í dag.

„Það gekk allt upp hjá mér, ekki síst vítaköstin tvö sem voru svolítið út úr karakter hjá mér en gengu sem betur fer upp,“ sagði Theodór en hann „skrúfaði“ boltann í framhjá markvörðum  Turda í tveimur vítaköstum í dag á listilegan hátt.

Theodór sagði það vera ákveðin vonbrigði að hafa ekki unnið stærri sigur þar sem möguleikarnir voru svo sannarlega fyrir hendi. „Við fórum illa með nokkur góð marktækifæri og fengum svo ódýr mörk á okkur í staðin, ekki síst þegar á leið á síðari hálfleikinn.  Það var svolítið dýrt og maður pirraði sig svolítið á þessu en þegar upp er staðið þá sættum við okkur við þriggja marka sigur,“ sagði Theodór sem líst vel á síðari viðureignina sem fram fer í Turda á sunnudaginn eftir viku.

„Vissulega  hefði fimm til sjö marka forskot verið betra fyrir síðari leikinn, en svona er þetta. Við erum með þriggja marka forskot og það kemur ekkert annað til greina en að klára verkefnið í Rúmeníu um næstu helgi og fara í úrslitaleikina í þessari keppni,“ sagði Theodór og bætir við að lið Turda sé besta liðið af þeim sem ÍBV hefur mætt í Evrópukeppninni á þessari leiktíð.

„Leikmenn Turda eru líkamlega sterkir og þungir. Aftur á móti erum við með léttleikandi lið. Það hentar okkur vel að leika á móti þeim, hreyfa þá vel og opna vörnina þeirra.

Hinsvegar var varnarleikur okkar ekki nógu góður að þessu sinni. Leikmenn Turda komust of oft á milli okkar í vörninni. Við verðum bæta  varnarleikinn og laga  nokkur smærri atriði í sókninni. Þar með eigum við að geta komið sáttir heim frá Rúmeníu frá síðari leiknum,“ sagði Theodór Sigurbjörnsson, markahæsti leikmaður ÍBV í sigurleiknum við Turda í dag í samtali við mbl.is í Eyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert