Förum í karaoke og það verður fagnað

Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson AFP

„Helgin er búin að vera góð. Við erum búnir að spila tvo leiki á tveimur dögum á meðan við höfum verið að takast á við mótlæti. Það hefur verið mikið af meiðslum hjá okkur sem gerir þetta sérstaklega sætt," sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við mbl.is eftir að Füchse Berlin vann EHF-bikarinn með 28:25-sigri á Saint-Raphaël í úrslitum. EHF-bikarinn er næststerkasta Evrópukeppnin í handboltanum á eftir Meistaradeildinni.

Bjarki og félagar unnu Göppingen í undanúrslitum í gær og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum.

„Við fengum hörkuleik í gær og svo mættum við Saint-Raphael í dag. Við þekkjum það lið vel og höfum mætt þeim áður. Við höfðum allir trú á því að við gætum unnið þá, við höfum unnið þá  áður og líka tapað fyrir þeim. Í dag vorum við vorum þéttir í vörn og vorum búnir að undirbúa okkur vel í að þeir spila mikið 7 á 6. Við vorum alltaf að fá færi á móti þeim. Við hefðum getað skorað 35 mörk en við klikkuðum svolítið á færum."

Liðið hatað í Magdeburg

Þrátt fyrir að leikurinn hafi farið fram í Þýskalandi, fékk Füchse ekki mikinn stuðning í höllinni á móti frönskum andstæðingum, heldur þvert á móti.

„Liðið okkar er hatað í Magdeburg. Þetta eru borgir í austur þýskalandi og það er mikill hiti þarna á milli. Magdeburg var í undanúrslitum og tapaði þegar flestir voru búnir að sjá fyrir að Füchse og Magdeburg myndu mætast í úrslitum. Við fundum það að allir áhorfendurnir frá Magdeburg voru á móti okkur, það var baulað á okkur frá fyrstu mínútu. Þetta var svo enn þá meira í dag þegar stuðningsmenn Göppingen komu líka að baula á okkur. Einu stuðningsmennirnir okkar voru í einu horni stúkunnar. Þetta var enn sætara fyrir vikið."

Bjarki var hluti af liðinu sem komst alla leið í úrslit í sömu keppni í fyrra, en þurfti þá að sætta sig við tap.

„Í fyrra var búist við að við myndum vinna, þá unnum við St. Raphael í undanúrslitum en töpuðum fyrir Göppingen í úrslitum. Núna var búist við minna af okkur vegna meiðsla og álags. Við erum búnir að spila þrjá leiki á fjórum dögum og því er enn sætara að vinna þetta."

Þrátt fyrir að Füchse eigi enn möguleika á að verða þýskur meistari þegar þrír leikir eru eftir, ætlar Bjarki að fagna áfanganum vel og innilega og hugsa um deildina síðar.

„Ég ætla ekki að ljúga að neinu, við ætlum að fara að fagna núna. Það er frídagur í Þýskalandi á morgun og við erum ekki að fara í rútu heim að sofa. Þetta er stór áfangi og það verður fagnað. Við förum í karaoke og það verður fagnað," sagði hæstánægður Bjarki Már Elísson. 

Leikmenn Füch­se Berlin fagna.
Leikmenn Füch­se Berlin fagna. Ljósmynd/Füch­se Berlin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert