Var aldrei í vafa

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var aldrei í vafa að markið væri dæmt gilt. Ég hefði verið hissa ef dómararnir hefðu tekið aðra ákvörðun,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, glaður í bragði við mbl.is eftir að liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarkeppninnar í handknattleik eftir dramatískt sigurmark gegn Haukum í Schenker-höllinni á Ásvöllum í Hafnafirði í kvöld, 25:24. Birkir Benediktsson skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu og þurftu dómarar leiksins, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, að skoða upptöku af markinu áður en þeir úrskurðuðu um að markið hafi verið skorað áður en leiktíminn rann út.

„Þetta var virkilega sætur sigur,“ sagði Einar Andri sem var ánægður með leik sinna manna sem höfðu tögl og hagldir í 45 til 50 mínútur. „Við áttum að vera búnir að gera út um leikinn fyrr svo að ekki hefði komið til þessarar spennu á síðustu mínútunum. En svona eru oft leikir bikarkeppninnar. Úrslitin ráðast oft ekki fyrr en í blálokin.“

Eftir að hafa verið undir lengst af leiksins sóttu Haukar í sig veðrið á lokamínútunum og jöfnuðu leikinn í 24:24 þegar hálf mínúta var eftir af leiktímanum. Fljótlega eftir markið tók Einar Andri leikhlé og fór yfir hvernig leika skyldi síðustu sekúndurnar. „Strákarnir lögðu upp lokasóknina. Ég vildi leika annað kerfi en gert var en strákarnir fengu sitt í gegn og Birkir lauk leiknum með þessu flotta marki. Hann var frábær í leiknum eins og allt liðið sem á mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína,“ sagði Einar Andri enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert