Áhersla lögð á sóknina

Sigríður Hauksdóttir í landsleik á móti Spáni í sumar.
Sigríður Hauksdóttir í landsleik á móti Spáni í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalandsliðið í handknattleik fær nú tækifæri til að slípa sinn leik í vikunni. Liðið undirbýr sig nú fyrir tvo vináttulandsleiki sem verða hérlendis um helgina. 

Ísland mætir Færeyjum á Ásvöllum á laugardag og sunnudag en fjórir mánuðir eru í næsta mótsleik sem verður á móti Tyrklandi. 

„Við höfum æft mjög mikið þessa vikuna og höfum lagt áherslu á sóknina sem af er. Við byrjum að vinna í varnarleiknum í dag. Við erum að slípa okkur saman og skerpa á tímasetningum og fleiri atriðum,“ sagði hornamaðurinn Sigríður Hauksdóttir þegar mbl.is ræddi við hana á landsliðsæfingu í Víkinni í morgun. 

Íslenska liðið fékk slæman skell í Króatíu þegar undankeppnin hófst í september, 29:8. Er því skiljanlegt að áhersla sé nú lögð á sóknarleikinn. Ísland lék einnig á móti heimsmeisturunum frá Frakklandi í lok september í undankeppni EM og tapaði 17:23.  Sigríður segir að hópurinn hafi afgreitt leikina tvo í september á þeim tíma og nú sé horft fram á veginn. 

„Við afgreiddum þá leiki þegar það verkefni kláraðist og erum ekki að kryfja þá núna. Við horfum fram á veginn og byggjum okkur upp. Addi og Dóri [Arnar Pétursson og Halldór Jóhann Sigfússon] eru að koma með fullt af nýjum atriðum. Við erum að fara yfir það. Þeir eru að koma með sínar áherslur. Leikkerfin sem við spilum í sókninni hafa verið notuð áður en áherslurnar eru ekki þær sömu. Er aðeins breyting þar á,“ sagði Sigríður og liðið nær að brúa bilið ágætlega þótt langt sé á milli mótsleikja. 

„Þetta verkefni núna er viðamikið og við munum einnig koma saman í desember. Þetta er bara spennandi,“ sagði Sigríður enn fremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert