„Margir hlutir á móti okkur í byrjun leiks“

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í Olís-deild karla í handbolta, hafði í mörgu að snúast í kvöld þegar Haukar sóttu KA heim.

Haukar lentu 7:1 undir í leiknum og fékk Aron snemma tveggja mínútna brottvísun. Hann þurfti seinna að sinna Darra Aronssyni, syni sínum, sem meiddist illa i byrjun seinni hálfleiks. Þrátt fyrir skakkaföll, smá æsing og tap í leiknum þá var Aron hinn rólegast strax eftir leik og hafði þetta að segja. 

Þið byrjuðuð illa en eftir að þú tókst á þig brottreksturinn þá smám saman minnkaði forskot KA. Maður hafði það alltaf á tilfinningunni að þið mynduð ná þeim á endanum. Það gekk þó ekki.  

„Byrjuninn var ekki góð og margir hlutir á móti okkur í byrjun leiks. Ég var nú að taka á mig gult spjald en fæ svo tvær mínútur. Með því settu dómararnir ákveðna pressu á sjálfa sig en ég ætla ekki að ræða þá því það er ekki minn stíll. Mér finnst samt að eftir þessa erfiðu byrjun þá náum við að sýna karakter og koma til baka. Minnkun muninn jafnt og þétt og vinnum okkur inn í leikinn. Við hefðum getað verið einu marki undir í hálfleik en klúðrum víti í lok fyrri hálfleiks. Það eiginlega endurspeglaði svo seinni hálfleikinn hjá okkur því að alltaf þegar við vorum að ná þeim, með boltann, einu marki undir þá var alltaf eitthvað sem kom í veg fyrir það. KA náði að brjóta ísinn og slíta sig aftur frá okkur. Við vorum bara ekki nægilega skarpir á lykilaugnablikum.“ 

Liðið þitt hefur lent í skakkaföllum. Ykkur vantar Geir og Heimi Óla í þessum leik og missið svo Darra í byrjun seinni hálfleiksins. Það munar mikið um þessa þrjá. 

„Þetta er bagalegt með Geir, sem var bara afgreiddur. Hann missir af einhverjum leikjum. Heimir Óli er að koma inn aftur. Bæði Þráinn og Jakob voru að standa sig gríðarlega vel á línunni og ekki við þá að sakast. Það var ákveðið sjokk að Darri hafi meiðst aftur hérna, eiginlega á nákvæmlega sama stað á gólfinu. Við vonum það besta með hann.“ 

Adam Haukur kom þá aftur inn í sóknina. Hann nær ennþá að lyfta sér vel frá gólfinu og var duglegur að dúndra á markið. 

„Hann byrjaði ekki vel í leiknum en kom sterkari inn í seinni hálfleiknum. Hann var líka pínu óheppinn og hefði, að mínu mati, alveg getað fengið tvö víti á mikilvægum tímum í leiknum en við fengum þau ekki. Svona er þetta bara“ sagði kappinn að lokum. 

Hugað að Darra Aronssyni í kvöld en hann fór meiddur …
Hugað að Darra Aronssyni í kvöld en hann fór meiddur af velli. Ljósmynd/Þórir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert