Bara einu sinni áður í sögunni

Vignir Stefánsson í leik gegn Steaua Búkarest í Evrópubikarnum.
Vignir Stefánsson í leik gegn Steaua Búkarest í Evrópubikarnum. mbl.is/Óttar Geirsson

Það er skammt stórra högga á milli hjá karlaliði Vals í handbolta um þessar mundir. Liðið féll úr leik gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins á miðvikudaginn var og er á leiðinni í úrslitaeinvígi gegn gríska liðinu Olympiacos í Evrópubikarnum.

„Það var hundleiðinlegt að tapa í undanúrslitum. Við vorum óánægðir með sjálfa okkur því við náðum ekki að koma okkur í gírinn sem við vorum í framan af. Því fór sem fór.

Maður þarf að vera snöggur að núllstilla sig og komast í gírinn. Við erum að fara í svakalega flott verkefni. Við verðum að geyma svekkelsið og setja alla einbeitingu á Evrópukeppnina og gera þetta eins og menn,“ sagði Vignir Stefánsson hornamaðurinn frá Vestmannaeyjum í liði Vals í samtali við mbl.is.

Íslenskt félagslið hefur aðeins einu sinni áður komist í úrslit í Evrópukeppni en það gerði Valur einmitt árið 1980.

„Þetta hefur bara verið gert einu sinni áður í sögunni og það sýnir manni að þetta er töluvert stórt afrek. Við erum ekki saddir við að vera komnir í úrslit. Okkur langar lengra.

Þetta eru forréttindi. Menn eru í alls konar störfum, í skóla og með fjölskyldur. Það eru fáir í liðinu sem átta sig á því hvað þetta er stórt. Við tölum um að njóta núna og sjúga þetta allt inn,“ sagði hann.

Nánar er rætt við Vigni og fleiri í grein um einvígið við Olympiacos í Morgunblaðinu sem kemur út á morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert