Mamma Messi ekki sátt

Messi gengur niðurlútur af velli eftir leikinn á móti Íslendingum …
Messi gengur niðurlútur af velli eftir leikinn á móti Íslendingum í Moskvu. AFP

Ferill Lionel Messi með argentínska landsliðinu í knattspyrnu hefur verið vonbrigði. Á meðan hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Barcelona hefur honum ekki tekist að vinna nema einn titil með Argentínumönnum, ólympíumeistaratitilinn sem telst langt í frá að vera einn af þeim stóru.

Það hefur valdið stuðningsmönnum argentínska landsliðsins miklum vonbrigðum að Messi hafi ekki tekist að færa þjóð sinni heimsmeistaratitilinn en Messi og samherjar hans þurftu að sætta sig við jafntefli á móti Íslendingum í fyrsta leiknum á HM þar sem Messi klúðraði vítaspyrnu. Ekki minnkuðu gagnrýnisraddirnar við þá niðurstöðu.

Þessi gagnrýni á Messi er móður hans ekki að skapi.

„Okkur sárnar að heyra þessa gagnrýni á Leo (Lionel Messi) og að hann sé ekki stoltur af að klæðast landsliðstreyjunni og að hann spili fyrir þjóð sína án skuldbindinga. Hann dreymir um að vinna heimsmeistaratitilinn. Það er það sem hann langar mest til,“ segir Celia Messi, móðir fótboltamannsins frábæra, í viðtali við argentínskan fjölmiðil.

„Ég sagði honum að gera það sem hann best veit, að njóta sín og ég hef sagt honum að öll fjölskyldan styðji hann.“

Argentínumenn eiga gríðarlega mikilvægan leik í kvöld en þá mæta þeir Króötum. Tapi Argentínumenn eiga þeir á hættu að komast ekki í 16-liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert