Hefur skoraði tíunda hvert mark á HM

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af átta mörkum sínum í …
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu af átta mörkum sínum í leiknum við Angóla í gær. Ljósmynd/Vincent Michel

Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti leikmaður Íslands á heimsmeistaramóti. Hann bætti átta mörkum í safnið í gær og hefur þar með skorað 291 mark. Það er rétt rúmlega tíunda hvert mark sem íslenska landsliðið hefur skorað í 116 leikjum á HM frá fyrsta leiknum fyrir 59 árum, en eftir leikinn við Angóla í gær eru mörk Íslands á HM 2.874.

Gunnlaugur Hjálmarsson skoraði fyrsta mark Íslands á HM 1958 gegn Tékkóslóvakíu í 27:17 tapleik. 

Guðjón Valur er einnig leikja- og markahæsti leikmaður Íslands á Evrópumótum.

Guðjón Valur er nú sá íslenski handknattleiksmaður sem leikið hefur flesta landsleiki á heimsmeistaramóti í karlaflokki. Hann hefur nú leikið 54 leiki í röð. Fyrsti leikur hans á HM var gegn Svíum í Montpellier 23. janúar 2001. Síðan hefur Guðjón Valur ekki misst úr leik. Fyrra leikjamet átti Ólafur Stefánsson, 53 leiki, en hann lék sinn síðasta HM-leik gegn Króötum 28. janúar 2011 í Malmö-Arena á HM í Svíþjóð.

Tímamótasigur í Metz

Sigur íslenska landsliðsins á Angóla í gær var fimmtugasti sigur landsliðsins á heimsmeistaramóti. Tapleikirnir eru 60 og jafnteflin sex. Fyrsti sigur Íslands á HM var á landsliði Rúmeníu í Hermann-Giesler-Halle í Magdeburg 1. mars 1958, 13:11. FH-ingurinn Ragnar Jónsson varð markahæstur með fimm mörk. Gunnlaugur Hjálmarsson var næstur með fjögur mörk, Birgir Björnsson skoraði tvö mörk og Bergþór Jónsson og Einar Sigurðsson skoruðu eitt mark hvor.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert