Mikil spenna í C-riðli

Ungverjinn Peter Gulyas reynir að komast í gegnum vörnina í …
Ungverjinn Peter Gulyas reynir að komast í gegnum vörnina í dag. AFP

Tveimur leikjum er lokið í dag á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Frakklandi, þar sem Ungverjar og Egyptar hrósuðu sigri.

Ungverjar burstuðu Sádi-Arabíu, 37:24, í C-riðli eftir að hafa verið yfir í hálfleik 17:10. Gabor Casaszar fór fyrir þeim með níu mörk, en Sadiq Almohsin var með sjö fyrir Sáudi-Arabíu.

Það er mikil spenna í riðlinum, en Ungverjar eru með fjögur stig eftir fjóra leiki. Hvíta-Rússland og Síle koma þar á eftir með tvö stig eftir þrjá leiki, og svo gæti hæglega farið að verði þau jöfn að stigum eftir riðlakeppnina þurfi markatala að skera úr um hvaða tvö fari áfram í 16 liða úrslit.

Egyptar eru hins vegar komnir áfram úr D-riðlinum og Argentína var engin fyrirstaða. Eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik 13:10 unnu Egyptar fimm marka sigur 31:26.

Tólf mörk frá Federico Vieyra dugði skammt hjá Argentínu, sem hafa tapað öllum fjórum leikjum sínum. Egyptar eru hins vegar með sex stig eins og Danir, sem eiga þó leik til góða. Þar fyrir aftan koma Svíþjóð og Katar með fjögur stig og eiga báðar þjóðir leik til góða á Egypta.

Egyptinn Eslam Eissa gegn Gonzalo Carou í liði Argentínu í …
Egyptinn Eslam Eissa gegn Gonzalo Carou í liði Argentínu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert