Ætlum okkur í milliriðlakeppnina

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. AFP

„Við mætum frábæru liði Makedóníu í lokaumferðinni, liði sem leikur mjög mikið með sjö sóknarmenn gegn sex varnarmönnum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, spurður um andstæðing íslenska landsliðsins í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins á morgun. Úrslit leiksins munu ráða því hvort liðið tekur sæti í milliriðlakeppni mótsins.

Íslenska landsliðinu nægir jafntefli en sannarlega þá leikur ekkert lið upp á jafntefli. „Makedóníuliðið hefur á að skipa frábærum línumönnum, stórskyttunni Kiril Lazarov og fleiri góðum leikmönnum. Þeir hafa gott lið og munu örugglega reyna að halda okkur niðri og ná stjórn á leiknum. Þetta verður erfiður leikur,“ sagði Guðmundur Þórður sem sagðist telja að íslenska liðið ætti helmingsmöguleika á sigri í leiknum.

„Við ætlum okkur í milliriðlakeppnina í Köln, það er á hreinu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir sigurleik Íslands á Japan í gær á heimsmeistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert