Annað áfall hjá Svíum

Kristján Andrésson landsliðsþjálfari Svía.
Kristján Andrésson landsliðsþjálfari Svía. AFP

Sænski línumaðurinn Jesper Nielsen leikur ekki meira með Svíum á heimsmeistaramótinu í handknattleik.

Nielsen, sem var kjörinn besti línumaðurinn á EM fyrir ári og er liðfélagi Guðjóns Vals Sigurðssonar og Alexander Peterssons, er meiddur í nára og farinn til Þýskalands.

Nilesen hefur ekki getað verið með í síðustu þremur leikjum Svía á HM vegna meiðslanna en lærisveinar Kristjáns Andréssonar halda í vonina um að komast í undanúrslitin en til þess þurfa þeir að vinna Dani í lokaumferð milliriðlakeppninnar í kvöld með minnst þriggja marka mun.

Jesper Konradsson, leikmaður danska liðsins Skjern, hefur verið kallaður inn í hópinn í stað Nielsen.

Nielsen er annar sterki leikmaðurinn sem Svíar missa í meiðsli en Jim Gottfridsson meiddist í riðlakeppninni en hann gæti spilað með Svíum í undanúrslitunum á föstudaginn komist Svíar í þau. Gottfridsson, sem leikur með þýska liðinu Flensburg, var valinn besti leikmaðurinn á EM í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert