Þetta var fantagóður leikur

Helgi Freyr Margeirsson.
Helgi Freyr Margeirsson. mbl.is/Kristinn

Hljóðið var skiljanlega gott í leikmönnum Tindastóls sem mbl.is tók tali eftir afar sannfærandi sigur á Njarðvík, 100:72, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Tindastóll valtaði yfir Njarðvíkinga

„Þetta var fantagóður leikur. Við komum grimmir inn og gerðum allt nákvæmlega eins og við ætluðum okkur að gera og fyrir okkur var lagt. Við náðum að loka á skytturnar þeirra, sóknirnar voru mjög góðar og hittnin ágæt, við slökuðum auðvitað aðeins á í lokin, það bara gerist þegar liðið er um fjörutíu stigum yfir og þá finnst mönnum engin hætta á ferðum, en það er verulega gaman að taka þátt í svona leik, þar sem allt gengur upp,“ sagði Hannes Ingi Másson.

Helgi Freyr Margeirsson tók í sama streng og að vörnin hafi verið lykillinn að sigrinum.

„Fyrir þennan leik var uppleggið að spila agressiva vörn, mæta þeim snemma og stoppa skytturnar þeirra.  Þetta gekk eftir og vörnin var beinlínis frábær.  Við vissum að þeir eru veikari inni í teignum og við gátum dreift spilinu á milli kanta og fengum þess vegna margar frekar auðveldar körfur.  Það var vörnin sem klárlega skapaði þennan sigur og þeir Hannes og Björgvin áttu frábæran varnarleik á þá Loga og Bonneau, og héldu þeim beinlínis niðri frá fyrstu mínútu,“ sagði Helgi við mbl.is.

Viðar Ágústsson sem ekkert hefur leikið með Tindastólsliðinu það sem af er leiktíðinni vegna meiðsla viðurkenndi að það hefði verið erfitt að vera utanvallar, en frábært að verða vitni að þessum sæta og örugga sigri á sterku liði Njarðvíkinga.

„Þetta var þvílíkur varnarsigur, við fóru í þennan leik í mikilli óvissu, við erum vissulega með hávaxnara lið, en það hefur nú stundum ekki verið nægilegt. Hannes, Jónas og Björgvin áttu allir stórleik og Pétur er lykilmaður og stjórnandi bæði í vörn og sókn.  Gríðarlega erfitt að gera upp á milli hver er bestur, þegar allt liðið spilar án þess að finnist veikur hlekkur.  Auk þess að spila frábæra vörn voru sóknirnar mjög öflugar og hittnin nánast 100% í fyrsta leikhluta. Tvímælalaust besti leikur liðsins það sem af er þessu tímabili,“ sagði Viðar Ágústson við mbl.is að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert