Í stjörnuleikinn hálfu ári fyrir Íslandsleik

Giannis Antetokounmpo er ekkert lamb að leika sér við.
Giannis Antetokounmpo er ekkert lamb að leika sér við. AFP

Giannis Antetokounmpo, „gríska fríkið“ eins og hann er kallaður, verður fyrsti Grikkinn til að spila stjörnuleik NBA-deildarinnar í körfubolta þegar leikurinn fer fram 19. febrúar í New Orleans.

Antetokounmpo var valinn í byrjunarlið austurdeildarinnar í stjörnuleiknum en hann hefur farið á kostum með Milwaukee Bucks á sinni fjórðu leiktíð með liðinu.

Antetokounmpo, sem er aðeins 22 ára gamall, hefur gefið út að hann muni spila með Grikklandi á EM í haust svo framarlega sem hann meiðist ekki. Þar kemur hann til með að mæta Íslandi í Helsinki, sem og Finnlandi, Frakklandi, Slóveníu og Póllandi.

Í grein á vef FIBA er vöngum velt yfir því hvort Antetokounmpo muni geta leitt gríska liðið í átt að verðlaunasæti, en liðið vann síðast til verðlauna á EM í Póllandi 2009 þegar það fékk brons. Antetokounmpo var með á EM 2015 og vakti athygli en hann skoraði 9,8 stig að meðaltali og tók 6,9 fráköst. Í vetur hefur hann skorað 22,5 stig, tekið 8,8 fráköst og átt 5,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í NBA-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert