Laskað lið hjá Finnum

Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson verða í eldlínunni gegn …
Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson verða í eldlínunni gegn Finnum í Laugardalshöllinni í kvöld. mbi.is/Kristinn Magnússon

Körfuboltalið með nokkuð svipaðan leikstíl eigast við í Laugardalshöll í kvöld þegar Ísland tekur á móti Finnlandi í undankeppni HM karla.

Liðin eru ekki með marga mjög hávaxna menn miðað við það sem gengur og gerist hjá sterkum landsliðum. Bæði geta þau spilað hratt og skjóta talsvert fyrir utan.

Finnska landsliðið hefur verið á töluverðri uppleið síðustu árin undir stjórn Henrik Dettmann. sem stjórnað hefur liðinu síðan 2004. Sá kann ýmislegt fyrir sér í faginu og var landsliðsþjálfari Þýskalands í sex ár. Unnu Þjóðverjar til bronsverðlauna undir hans stjórn á HM 2002.

Finnar unnu nauman útisigur á Búlgörum 82:80 í fyrsta leik sínum í undankeppninni en töpuðu heima fyrir Tékkum 56:64. Finnar sakna fjögurra af sínum öflugustu leikmönnum en þeir voru ekki heldur með í fyrstu tveimur leikjunum.

Markkanen upptekinn í NBA

Finnska liðið ætti því að vera töluvert veikara en það var á EM í Helsinki. Þar voru Finnar mjög öflugir í riðlakeppninni og unnu til að mynda bæði Frakkland og Grikkland sem kom töluvert á óvart. Þeir féllu úr keppni í 16-liða úrslitum. Leikur Finna og Íslendinga á EM var mjög spennandi en Finnar höfðu betur 83:79. Leikmennirnir sem um ræðir eru Lauri Markkanen hjá Chicago Bulls, Petteri Koponen hjá Barcelona, Sasu Salin hjá Unicaja Málaga og Gerald Lee hjá Maccabi Ashdod.

Íslenska þjálfarateymið hefur hins vegar getað kortlagt leik finnska liðsins út frá leikjunum tveimur fyrir áramót. Þrátt fyrir forföll voru úrslit Finna betri gegn Tékkum og Búlgörum en úrslit Íslendinga. Þess ber þó að geta að íslenska liðið hefur endurheimt Jón Arnór Stefánsson, Hörð Axel Vilhjálmsson og Pavel Ermolinskij frá því í leikjunum fyrir áramót þegar Ísland tapaði fyrir Tékkum ytra 89:69 og Búlgörum heima 74:77.

Meiri sigurmöguleikar í kvöld

Benedikt Guðmundsson, körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, segir að í ljósi þeirra forfalla sem eru hjá Finnum eigi Ísland meiri möguleika á sigri í kvöld heldur en gegn Tékkum á sunnudaginn.

„Að hluta til vegna þess að hjá Finnum vantar eiginlega bestu mennina. Finnar eru betri en Íslendingar í körfubolta en við erum með svo gott sem fullmannað lið núna. Finnar eiga fullt af góðum leikmönnum en ég held að líkurnar hljóti að verða aðeins meiri þegar vantar nokkra af þeirra bestu mönnum,“ sagði Benedikt. Hann segir að Ísland muni engu að síður mæta vel þjálfuðu og skipulögðu liði. „Dettmann er þjálfari sem veit hvað hann er að gera. Mjög öflugur þjálfari sem nýtur virðingar í þjálfarastéttinni. Finnar eru sterkir í körfubolta. Þetta er hálfgerð Austur-Evrópuþjóð þar sem ríkir körfuboltahefð. Þeir hafa lengi spilað öflugan varnarleik. Eru ákafir í maður á mann vörn sem er erfitt að spila á móti. Í sókninni eru stóru mennirnir fjölhæfir. Hreyfanlegir strákar sem erfitt er að valda,“ sagði Benedikt.

Sjá alla greinina íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert