Virkuðum þreyttir og laskaðir

Illugi berst um frákast í kvöld.
Illugi berst um frákast í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Við virkuðum þreyttir og laskaðir eftir síðasta leik," sagði Illugi Auðunsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 77:86-tap fyrir Keflavík í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. 

Valsmenn náðu fínum köflum í leiknum og segir Illugi góða vörn skila því. Hins vegar gekk sóknarleikurinn ekki eins vel. 

„Við vorum að spila fína vörn, eitthvað sem við höfum ekki verið sérstaklega góðir í upp á síðkastið, við höfum verið að skora endalaust. Loksins þegar við förum að stoppa getum við ekki skorað."

Kendall Anthony átti ekki sinn besta leik hjá Val, en hann hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar upp á síðkastið. 

„Þeir loka á hann og við erum búnir að vera vanir því að hann skori sín stig. Ef við fáum ekki það sem við fáum venjulega frá honum þurfa aðrir að stíga upp."

Illugi segir Valsmenn vilja meira en þeir hafa sýnt til þessa. 

„Þetta er búið að vera upp og niður. Menn eru enn þá að reyna að koma sér í gang. Við erum ekki sáttir við þann stað sem við erum á. Við spilum einn leik fyrir jól og svo þurfum við að nota jólafríið til að melda okkur betur saman. Úrslitakeppnin er lágmark," sagði Illugi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert