ÍR nánast með fullskipað lið

Borche Ilievski.
Borche Ilievski. mbl.is/Hari

„Ég tel okkur eiga möguleika,“ sagði Borche Ilievski þjálfari ÍR um rimmuna gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik sem hefst í kvöld. ÍR hafnaði í 7. sæti í deildinni og Njarðvík í 2. sæti en ÍR vann þó leik liðanna í Njarðvík nýlega.

Spurður um hvort sigurinn í Njarðvík gefi hans mönnum aukið sjálfstraust fyrir rimmuna segir Borche svo vera. „Já allt snýst þetta um að vera með sjálfstraustið í lagi og úrslitin í Njarðvík hjálpuðu til á mikilvægum tímapunkti. Eins og þú veist þá gekk okkur erfiðlega að tefla fram okkar sterkasta liði í vetur vegna meiðsla. Nú eru allir heilir nema Daði Berg Grétarsson. Æfingarnar ganga mjög vel og ég er aftur farinn að hafa verulega gaman að því að þjálfa þetta lið. Við verðum ferskir eftir smá frí og mætum tilbúnir til leiks andlega og líkamlega,“ sagði Borche þegar mbl.is spjallaði við hann. 

„Lið Njarðvíkur er mjög gott og vel þjálfað af Einari Árna. Í liðinu er gott jafnvægi og er vel mannað í mörgum stöðum. Við erum eitt þeirra liða sem náðum að vinna þá í deildinni. Gerðum það í Njarðvík í leik sem var mikilvægur fyrir okkur en töpuðum naumlega fyrir þeim í Seljaskóla. Ég tel okkur eiga möguleika gegn þeim,“ sagði Borche Ilievski. 

Njarðvík og ÍR eigast við í fyrsta leik sínum í 8-liða úrslitum í kvöld klukkan 19:15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert