Kippir sér ekki upp við neikvæða orðræðu

Danero Thomas er kominn aftur til ÍR-inga
Danero Thomas er kominn aftur til ÍR-inga mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danero Thomas er fullur tilhlökkunar að takast á við krefjandi verkefni með ÍR-ingum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, en hann skrifaði undir samning við félagið í byrjun vikunnar sem gildir út leiktíðina.

Danero kemur til félagsins frá 1. deildar liði Hamars en ÍR-ingar, sem misstu Sigurð Gunnar Þorsteinsson út vegna krossbandsslita á dögunum, eru í sjötta sæti deildarinnar með 6 stig eftir fyrstu sex umferðir deildarinnar.

„Ég skrifaði undir opinn samning við Hamar í september því markmiðið í sumar var að fara til útlanda og spila. Það voru nokkur lið sem höfðu áhuga og settu sig í samband við umboðsmann minn en að lokum varð ekkert úr því. ÍR setti sig svo í samband við mig um daginn og eftir að hafa rætt við þá í stutta stund komumst við að samkomulagi. Ég fór á mína fyrstu æfingu með liðinu á mánudaginn og ég er fullur tilhlökkunar að hefja leik með þeim í Dominos-deildinni.“

Kominn til að hjálpa liðinu

Danero lék með ÍR-ingum á árunum 2016 til 2018 en yfirgaf félagið sumarið 2018 þegar hann samdi við Tindastól. Stuðningsmenn ÍR, Ghetto-Hooligans, voru margir hverjir ósáttir með þessa ákvörðun leikmannsins og létu í sér heyra, meðal annars á samfélagsmiðlinum Twitter, en leikmaðurinn ítrekar að hann sé mættur í Breiðholtið til þess að spila körfubolta.

„Ég fór og hitti alla hjá félaginu á sunnudaginn og það var góður andi í loftinu. Fólkið í kringum félagið tók mér opnum örmum og ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég litlar áhyggjur af því hvernig móttökur ég mun fá í Seljaskóla. Ég er kominn til félagsins til þess að spila körfubolta og hjálpa liðinu þar sem það þarf mest á mér að halda. Ég á að baki sjö ára atvinnumannaferil og ég er löngu hættur að kippa mér upp við neikvæða orðræðu. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að þeir sem hafa eitthvað að segja, segja það á bak við luktar dyr, og ef fólk hefur ekki hugrekki til þess að segja það við mig persónulega þá er ég ekki að velta mér upp úr svona hlutum. Þannig að hvort sem mér verður tekið fagnandi eða ekki þá mun ég alltaf skila mínu fyrir ÍR í vetur.“

Sjá allt viðtalið við Danero Thomas á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert