Saka starfsmann um hatursorðræðu – sagði leikmanni að halda kjafti

Skagamenn voru ósáttir við framkomu starfsmanns Hamars.
Skagamenn voru ósáttir við framkomu starfsmanns Hamars. Ljósmynd/ÍA

Körfuknattleiksdeild ÍA hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að félagið harmi og fordæmi með öllu hegðun starfsmanns Hamars á meðan á leik liðanna í 1. deild karla í gær stóð.

Samkvæmt yfirlýsingu  ÍA fékk starfsmaðurinn að áreita leikmenn óáreittur og þá sérstaklega Jalen Dupree. Að sögn ÍA mátti Dupree þola hatursorðræðu á meðan á leik stóð.

„Starfsmaðurinn fékk óáreittur og ítrekað að áreita leikmenn ÍA og þá sérstaklega Jalen Dupree sem taldi sig upplifa sig sem fornarlamb hatursorðræðu í sinn garð.

Það er von stjórnar Körfuknattleiksdeildar ÍA að hart verði tekið á þessu innan körfuknattleiksdeildar Hamars og að tryggt verði að aðstæður sem þessar komi aldrei upp aftur svo leikmenn og þjálfarar af öllum kynjum og kynþáttum geti spilað leiki án þess að eiga á hættu að verða fyrir fordómum eða mismunun af einhverju tagi,“ segir m.a. í yfirlýsingu ÍA.

Í svari körfuknattleiksdeild Hamars við yfirlýsingu ÍA er ásökununum vísað til föðurhúsanna. Að sögn Hamars var Dupree réttilega vikið af velli, fyrir að bregðast illa við orðskiptum við starfsmann.

Hamarsmenn viðurkenna að starfsmaðurinn hafi sagt leikmanninum að halda kjafti og við það reiddist Dupree og var rekinn af velli. Hamarsmenn ítreka þó að ekki hafi verið um neins konar kynþáttaníð að ræða.

„Stjórn körfuknattleiksdeildar Hamars ítrekar að kynþáttur leikmannsins kom hvergi við sögu en biðst engu að síður afsökunar á að starfsmaður hafi svarað leikmanni ÍA. Þessi framkoma er hvorki starfsmanni né leikmanni til fyrirmyndar,“ segir í yfirlýsingu Hamars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert