ÍR aftur í úrvalsdeild

Hákon Örn Hjálmarsson og félagar í ÍR eru komnir aftur …
Hákon Örn Hjálmarsson og félagar í ÍR eru komnir aftur í deild þeirra bestu. mbl.is/Kristinn Magnússon

ÍR tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næsta tímabili með því að vinna Sindra örugglega, 109:75, í þriðja leik liðanna í umspili um laust sæti í Skógarseli í Breiðholti.

ÍR vann einvígið 3:0 og snýr því aftur í deild þeirra bestu eftir einungis árs fjarveru.

Strax varð ljóst í hvað stefndi þar sem ÍR var tíu stigum yfir, 19:9, að loknum fyrsta leikhluta og með 21 stigs forskot í hálfleik 54:33.

Í síðari hálfleik reyndist eftirleikurinn auðveldur fyrir Breiðhyltinga og niðurstaðan var að lokum afar sannfærandi 34 stiga sigur.

ÍR-ingar skiptu stigunum bróðurlega á milli sín þar sem þeir Friðrik Leó Curtis, Lamar Morgan og Hákon Örn Hjálmarsson skoruðu 18 stig hver.

Friðrik Leó tók auk þess tíu fráköst og Morgan gerði slíkt hið sama. Collin Anthony Pryor bætti við 17 stigum og tíu fráköstum.

Stigahæstur í liði Sindra og jafnframt í leiknum var Samuel Prescott með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert