Tvíframlengd háspenna í fyrsta leik

Emilie Hesseldal úr Njarðvík skýtur að körfu Keflavíkur í kvöld.
Emilie Hesseldal úr Njarðvík skýtur að körfu Keflavíkur í kvöld. mbl.is/Skúli

Keflavík er komin í 1:0 í einvígi sínu gegn Njarðvík í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir tvíframlengdan spennuleik í Keflavík. Urðu lokatölur 94:91. 

Leikið var í Íþróttahúsinu í Keflavík. Keflavíkingar eru því komnir yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari.

Njarðvíkurkonur mættu af fullum krafti í fyrsta leikhluta og skoruðu fyrstu 8 stig leiksins áður en Keflavíkurkonur settu fyrstu körfuna. Keflavíkurkonur eyddu svo fyrsta leikhluta í að saxa niður forskot Njarðvíkur og á endanum tókst þeim að jafna og komast yfir rétt fyrir lok fyrsta leikhluta. Staðan 15:14 fyrir Keflavík eftir fyrsta leikhlutann.

Bæði lið byrjuðu annan leikhluta á að setja niður þriggja stiga körfur en svo komust Njarðvíkurkonur yfir með körfu frá Anðela Strize. Njarðvík komst síðan mest 7 stigum yfir í leikhlutanum en Keflavíkurkonur náðu að minnka þann mun fyrir hálfleikinn.

Keflavík jafnaði leikinn tvisvar sinnum í öðrum leikhluta í stöðunum 30:30 og 32:32. Njarðvíkurkonur settu síðan niður 4 síðustu stig leikhlutans og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 36:32 fyrir Njarðvík.

Stigahæst í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik Sara Rún Hinriksdóttir með 9 stig. Daniela Wallen var með 8 fráköst og Emilía Ósk Gunnarsdóttir var með 2 stoðsendingar.

Í liði Njarðvíkur var Selena Lott með 10 stig. Emilie Hesseldal var með 8 fráköst og Ena Viso var með 4 stoðsendingar.

Keflavík byrjaði þriðja leikhlutann á að jafna í stöðunni 36:36. Þá loksins mættu Njarðvíkurkonur í leikhlutann og fóru hægt og bítandi að vinna upp muninn aftur þó hann væri aldrei mikill. Mest náði Njarðvík 10 stiga forskoti en Keflavíkurkonur sýndu að þær geta unnið slíkan mun upp á örskammri stundu. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 57:52 fyrir Njarðvík og allt innan skekkjumarka fyrir fjórða leikhluta.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi eins og von var á. Njarðvík leiddi framan af leikhlutanum og komst mest 7 stigum yfir. Þegar 4 mínútur voru eftir var staðan 66:62 fyrir Njarðvík. Þá tóku Keflavíkurkonur við sér og komust yfir í 68:66 og 71:69. Þegar 8 sekúndur voru eftir og staðan jöfn 71:71. Njarðvíkurkonur fengu tækifæri til að skora sigurkörfuna en það tókst ekki og framlengja þurfti leikinn.

Framlengingin var auðvitað gríðarlega spennandi. Keflavíkurkonur náðu strax undirtökunum og komust 5 stigum yfir í stöðunni 78:73. Þann mun náðu Njarðvíkurkonur að jafna. Njarðvík fékk aftur tækifæri til að skora sigurkörfuna en það tókst ekki og því þurfti að framlengja aftur. Staðan eftir fyrri framlenginuna 78:78.

Keflavíkurkonur sýndu mátt sinn og megin í seinni framlengingunni þegar þær byrjuðu á því að stela boltanum og ná forskotinu í stöðunni 80:78. Þær komust síðan í 82:80 og settu í kjölfarið tvær þriggja stiga körfur í röð og kláruðu leikinn. Staðan 88:80. Njarðvíkurkonur reyndu hvað þær gátu að koma til baka en munurinn var einfaldlega of mikill. Svo fór að Keflavík vann 94:91.

Þess ber að geta að þetta er í sjötta sinn sem liðin mætast á þessu tímabili og Keflavík hefur unnið alla leikina til þessa.

Thelma Ágústsdóttir skoraði 29 stig fyrir Keflavík. Daniela Wallen var með 17 fráköst og Elisa Pinzan var með 9 stoðsendingar.

Í liði Njarðvíkur var Selena Lott með 39 stig. Emilie Hesseldal var með 19 fráköst og Ena Viso var með 7 stoðsendingar.

Liðin mætast aftur í Ljónagryfjunni á sunnudaginn kl 19:15.

Keflavík 94:91 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert