Kaldbakur með þriðjungshlut í TM

Fjárfestingarfélagið Kaldbakur hf. keypti í gær hlutabréf að nafnverði 115,1 milljón króna í Tryggingamiðstöðinni og jók þar með eignarhlut sinn í fyrirtækinu úr 20,41% í 32,8%. Samkvæmt upplýsingum af vef Kauphallar Íslands fóru kaupin fram á genginu 13,4-13,5 og er kaupverð hlutarins því um 1,5 milljarðar króna. Kaldbakur er þar með orðinn stærsti einstaki eigandi félagsins.

Eiríkur S. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kaldbaks og stjórnarmaður í Tryggingamiðstöðinni, sagði að bréf hefðu boðist á góðu verði og því hefði verið ákveðið að kaupa. "Þetta er að okkar mati góður fjárfestingarkostur," sagði Eiríkur.

Hann sagði að þrátt fyrir að vera komnir með stóran hlut í félaginu, um þriðjungshlut, væri ekki ætlunin að auka meira við sig svo neinu næmi, né væri stefnt að yfirtöku félagsins.

Eiríkur sagði að nýtt landslag væri að myndast í viðskiptum þessa dagana og með auknum hlut í Tryggingamiðstöðinni væri Kaldbakur að segja að félagið ætlaði sér ekki að sitja hjá og láta aðra aðila eina um að stokka upp markaðinn. "Við ætlum okkur að spila á þessum markaði og með þátttöku okkar í Tryggingamiðstöðinni erum við í góðum félagsskap."

Morgunblaðið náði einnig tali af Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, stjórnarformanni Tryggingamiðstöðvarinnar. Sagði hann að aðkoma Kaldbaks að félaginu væri fagnaðarefni.

Þangað til í apríl sl. átti Kaldbakur óverulegan hluta í Tryggingamiðstöðinni og hefur því aukið hratt við sig á skömmum tíma.

Tryggingamiðstöðin var rekin með 333 milljóna króna hagnaði fyrstu sex mánuði þessa árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK