Landsbankinn með 23,32% hlutafjár í Burðarási

Landsbankinn hefur aukið hlut sinn í Burðarási og á nú 23,32%. Eignarhlutur Samson Global Holdings í Burðarási nemur 19,81% og Samherji á 5,28% hlutafjár í Burðarási eftir að hafa fengið greitt fyrir hlut sinn í Kaldbaki með bréfum í Burðarási.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að þann 23. september sl. var tilkynnt til Kauphallar Íslands hf. að Burðarás hf. hefði eignast meirihluta hlutafjár í Kaldbaki hf. Þann dag var gengið frá samningum um kaup Burðaráss hf. á 76,66% hlutafjár í Kaldbaki hf. en seljendur voru Samherji hf., Baugur Group hf. og Samson Global Holdings Ltd. Samkvæmt samningum fengu seljendur nýtt hlutafé í Burðarási hf. sem endurgjald fyrir hluti sína í Kaldbaki hf., 0,63784 hluti í Burðarási hf. fyrir hvern hlut í Kaldbaki hf., en kaupin voru gerð með þeim fyrirvara að hluthafafundur í Burðarási hf. samþykkti að gefa út nýja hluti til seljenda og annarra hluthafa í Kaldbaki hf.

Á hluthafafundi Burðaráss hf. þann 18. október sl. var m.a. samþykkt tillaga um heimild til hækkunar á hlutafé félagsins um allt að 1.119.047.931 krónur að nafnverði og hefur stjórn félagsins þegar nýtt hluta af þessari heimild og hækkað hlutafé félagsins um 859.120.017 krónur að nafnverði. Er sá fyrirvari sem settur var í fyrrgreindum samningum því niður fallinn.

Samherji hf., Baugur Group hf. og Samson Global Holdings Ltd. hafa nú afhent Burðarási hf. eignarhluti sína í Kaldbaki hf. og er eignarhlutur þeirra í Kaldbaki hf. enginn eftir viðskiptin. Sem endurgjald hefur þessum aðilum verið afhent hlutafé í Burðarási hf.

Eftir viðskiptin er eignarhlutur Samherja hf. í Burðarási hf. að nafnverði 280.001.638 krónur sem gerir 5,28% af heildarhlutafé félagsins. Fyrir viðskiptin og hlutafjáraukninguna í Burðarási átti Samherji 263.675 krónur að nafnverði hlutafjár í Burðarási hf. eða 0,01% af heildarhlutafé. Viðskiptin nú nema 279.737.963 krónum að nafnverði.

Eignarhlutur Samson Global Holdings Ltd. í Burðarási hf. eftir viðskiptin nemur 1.049.962.262 krónum að nafnverði eða 19,81% af heildarhlutafé félagsins. Fyrir viðskiptin og hlutafjárhækkunina í Burðarási átti Samson Global Holdings Ltd 747.659.282 krónur að nafnverði hlutafjár í Burðarási hf. eða 16,84% af heildarhlutafé. Viðskiptin nú nema 302.302.980 krónum að nafnverði.

Landsbankinn með framvirkan samning við Baug

Í tengslum við þessi viðskipti hefur Landsbanki Íslands hf. aukið eignarhlut sinn í Burðarási hf. og nemur eignarhlutur bankans nú 1.235.921.107 krónum að nafnverði eða 23,32% af heildarhlutafé félagsins. Þar af eru 361.742.387 krónur í framvirkum samningum. Fyrir viðskiptin og hlutafjáraukninguna í Burðarási var Landsbanki Íslands hf. skráður fyrir 958.842.033 krónum að nafnverði sem gerir 21,60% af heildarhlutafé. Þar af voru 84.663.313 krónur að nafnverði í framvirkum samningum. Viðskiptin nú nema því 277.079.074 krónum að nafnverði og er um að ræða framvirkan samning við Baug Group hf. sem fer með atkvæðisrétt þann sem umræddum hlutum fylgir, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK