FL Group gengur frá kaupum á danska flugfélaginu Sterling

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, á blaðamannafundinum á Hótel Nordica …
Hannes Smárason, forstjóri FL Group, á blaðamannafundinum á Hótel Nordica í dag. Brynjar Gauti

FL Group hefur gengið frá kaupum á danska flugfélaginu Sterling. Kaupverðið er 1.500 milljónir danskra króna, eða um 14,6 milljarðar íslenskra króna. Hluti kaupverðs er afkomutengdur og náist ekki ákveðinn árangur getur kaupverðið lækkað um allt að 500 milljónir danskra króna, um 4,9 milljarða íslenskra króna. Að sama skapi getur kaupverð hækkað ef betri árangur næst. 11 milljarðar eru greiddir í peningum en afgangurinn í nýju hlutafé.

Sölubann er á hlutabréfum fram til 31. mars 2007. Sterling verður áfram rekið sem sjálfstætt rekstrarfélag, en FL Group mun taka við rekstri félagsins 1. janúar 2006 að gefnu samþykki samkeppnisyfirvalda.

Þá verður lagt til við hluthafafund að hlutafé FL Group verði aukið um 44 milljarða að markaðsvirði. Verður eigið fé félagsins þá 65 milljarðar króna. Heildarvelta rekstrarfélaga FL Group verður 100 milljarðar eftir kaupin. Samkvæmt niðurstöðum úr bráðabirgðauppjöri fyrir fyrstu 9 mánuði ársins var hagnaðurinn yfir 8 milljarðar króna, sem er besti árangur félagsins frá upphafi.

„Við erum að leggja til grundvallar breytingu á félaginu með þessari hlutafjáraukningu. Með henni styrkist eiginfjárstaða og efnahagur FL Group til að takast á við stór og áhugaverð fjárfestingaverkefni hér á Íslandi og erlendis,“ sagði Hannes Smárason, forstjóri félagsins.

„Markmið okkar er að verða leiðandi áhrifafjárfestir með áherslu á Evrópu. Við viljum taka þátt í ört vaxandi lágfargjaldamarkaði í Norður-Evrópu og sjáum mikla möguleika í þeim breytingum sem hafa verið gerðar á rekstri Sterling, en ekki síður þeirri þróun sem framundan er. Markmiðið er að Sterling einbeiti sér að leiguflugs- og ferðamannamarkaðnum með sérstaka áherslu á Suður-Evrópu,“ sagði Hannes.

Tilkynning FL Group

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK