Glitnir telur að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum

mbl.is/Ómar

Seðlabankinn mun kynna ákvörðun sína í vaxtamálum á fimmtudag í næstu viku. Stýrivextir bankans eru nú 14% og telur Greining Glitnis mestar líkur á óbreyttum vöxtum en útilokar þó ekki vaxtahækkun um 0,25 prósentustig.

„Færa má rök fyrir því að Seðlabankinn hafi náð góðum árangri með síðustu vaxtahækkun og geti nú haldið vöxtum óbreyttum. Gengi krónunnar hefur hækkað töluvert að undanförnu, verðbólguhorfur hafa batnað verulega og verðbólguálag á fjármálamarkaði hefur dregist snarlega saman. Íbúðaverð hefur einnig staðnað á síðustu mánuðum og aðstæður á markaði gefa til kynna að hækkun íbúðaverðs verði ekki verðbólguvaldur á næstunni. Seðlabankinn gæti því litið svo á að ekki sé þörf á frekari vaxtahækkun, a.m.k. í bráð.

Flestum er hins vegar ljóst að gengisáhætta er nú umtalsvert meiri en áður eftir innkomu erlendra spákaupmanna sem hafa tekið stórar stöður með krónunni að undanförnu. Ekki er vitað hver viðbrögð þeirra yrðu ef bankinn boðaði nú vaxtalækkunarferli en í versta falli myndi stór hluti þeirra loka stöðum sínum, sem myndi þýða snarpa gengislækkun krónu. Seðlabankinn þarf því að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að boða lok vaxtahækkunarferlisins og/eða upphaf vaxtalækkunarferlis. Gengisþróun krónunnar mun ráða miklu um hvort verðbólgan hjaðnar á næstunni líkt og spár gefa nú til kynna eða hvort hún verður áfram mikil," að því er segir í Morgunkorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK