Glitnir telur að álversframkvæmdir hefjist í Helguvík á næsta ári

Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.
Tölvumynd sem sýnir hvar hugsanlegt álver í Helguvík myndi rísa.

Greining Glitnis spáir því að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi bankastjórnar þann 1. nóvember næstkomandi. Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 13,3% en Glitnir telur að vaxtalækkunarferli bankans hefjst í lok fyrsta ársfjórðungs.

Glitnir telur yfirgnæfandi líkur á að álversframkvæmdir hefjist í Helguvík á næsta ári. „Við spáum því að vaxtalækkunarferlið verði hægara en við áður töldum og stýrivextir bankans standi í 10% í árslok 2008 í stað 9,25% í okkar fyrri spá. Við spáum því að stýrivextirnir standi í 7% í lok árs 2009." Í nýrri stýrivaxtaspá Greiningar Glitnis kemur fram að verðbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað. Mikil spenna er enn á vinnumarkaði, atvinnuleysi lítið og atvinnuþátttaka mikil. Þá hafa laun farið hækkandi að undanförnu og kaupmáttur launa aukist. Neytendur eru bjartsýnir sem aldrei fyrr um núverandi efnahagsástand þrátt fyrir óróleika á fjármálamörkuðum og veikingu krónunnar. Það virðist því enn vera töluverð þensla í pípunum.

„Á hinn bóginn er ekki loku fyrir það skotið að bakslag verði í innlendri hagþróun vegna áhrifa þess umróts sem verið hefur á alþjóðlegum mörkuðum undanfarnar vikur. Lausafjárskortur hefur gert vart um sig víða um heim. Hækkandi útlánavextir í kjölfar lausafjárskorts eru til þess fallnir að hægja á útlánastarfsemi og halda aftur af verðhækkun eigna, einkum húsnæðis með hækkandi íbúðalánavöxtum. Sviptingar á fjármálamörkuðum bæta þannig í aðhald peningastefnunnar með því að hægja á vexti hagkerfisins.

Seðlabankar víða um heim hafa frestað vaxtahækkunum að undanförnu af sömu ástæðu. Til skemmri tíma litið er því útlit fyrir að hægar dragi úr mun innlendra og erlendra skammtímavaxta en við reiknuðum áður með. Það ætti að styðja við gengi krónunnar sem fyrr segir. Eins og er vega þó fyrrnefndu áhrifin þyngra," samkvæmt nýrri stýrivaxtaspá Greiningar Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK