Gjörbreytt staða gefur tilefni til vaxtalækkunar

Staða íslenska hagkerfisins hefur gjörbreyst frá síðustu spá greiningardeildar Kaupþings í október í kjölfar þess að undirmálslánakrísan hefur dýpkað á erlendum mörkuðum. Efnahagslífið er nú á hraðri leið til kólnunar og það gefur færi á lækkun vaxta Seðlabankans fyrr en áður var spáð.

Í nýju vefriti greiningardeildar Kaupþings kemur fram að undirmálslánakrísan hefur teygt anga sína til Íslands með hækkun skuldatryggingarálags bankanna og lækkun á hlutabréfamarkaði. Þannig hefur fórnarkostnaður fjármagns hækkað verulega hjá fjármálastofnunum auk þess sem geta bæði fólks og fyrirtækja til veðsetningar og lántöku hefur minnkað stórlega. Þessi þróun eykur bit vaxtaaðgerða Seðlabankans og veldur mun hraðari kólnun í efnahagslífinu en áður var spáð.

„Nú hefur myndast svigrúm fyrir Seðlabankann til að fikra sig niður til lægri vaxta og því fyrr sem lækkunarferlið er hafið þeim mun betra. Lengri töf á lækkun vaxta myndi þrengja mjög þann tímaramma sem lækkunarferlið getur miðast við og leiða til mun brattari og áhættusamari vaxtalækkunarferils.

Sérstaklega gæti það skapað hættu á kollsteypu á gjaldeyrismarkaði ef vaxtamunur er keyrður skyndilega niður eftir langa töf eins og raunar síðasta vaxtaspá Seðlabankans sjálfs frá því í nóvember gerir ráð fyrir," samkvæmt vefriti Kaupþings.

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að gengi krónunnar veikist í upphafi vaxtalækkunarferilsins á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs og miðast allar spár greiningardeildar við þá forsendu.

„Hins vegar verður vaxtamunur það mikill - og að einhverju leyti studdur af vaxtalækkunum seðlabanka í nágrannalöndum – að krónan mun áfram hafa töluverðan stuðning."

„Ávöxtunarkrafa verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa lækkar næsta árið. Lækkunina má fyrst og fremst rekja til lækkandi stýrivaxta en við gerum ráð fyrir tiltölulega hröðu vaxtalækkunarferli Seðlabanka Íslands og að það muni hefjast nú í febrúar," samkvæmt spá greiningardeildar Kaupþings.

Einkaneysla dregst saman um 5% á næstu tveimur árum samkvæmt spá greiningardeildar Kaupþings. Hins vegar munu nýjar stóriðjufjárfestingar og framkvæmdir á vegum ríkisins að einhverju leyti mæta þessum slaka.

Vefrit greiningardeildar Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK