Tekjur Icelandair Group 72 milljarðar króna

Icelandair
Icelandair

Tekjur Icelandair Group námu 72 milljörðum króna fyrstu átta mánuði ársins sem er aukning um 68% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group en félagið ákvað að senda frá sér tilkynningu um stöðu félagsins í ljósi óvenjulegra aðstæðna á fjármálamörkuðum. Um óendurskoðað uppgjör er að ræða. Rekstrarhagnaður (EBITDA) Icelandair Group nam 6,3 milljörðum króna sem er 43% aukning frá sama tímabili í fyrra.

 EBIT hagnaður er 3,9 milljarðar króna, sem er 58% aukning frá sama tíma í fyrra. EBT er 2,6 milljarðar króna, sem er 169% aukning frá sama tíma í fyrra. Handbært fé í lok ágúst er 6,7 milljarðar króna, að því er segir í  tilkynningu frá Icelandair Group. Ekki kemur fram í tilkynningunni hver afkoma félagsins er eftir skatta og fjármagnsgjöld, það er endanlegur hagnaður eftir fyrstu átta mánuði ársins.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningu:
„Rekstur félaga innan Icelandair Group hefur gengið vel á þessu ári. Tekjur hafa aukist verulega og afkoma batnað þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, sem sýnir styrk og sveigjanleika félagsins. Sjóðstaða félagsins er góð og næsti stóri gjalddagi lána er í lok janúar 2009 vegna 2,5 milljarða króna skuldabréfs í eigu íslenskra aðila. Unnið er að fjármögnun vegna þess. Athygli er vakin á því að kaup félagsins á erlendum fyrirtækjum hafa ekki verið fjármögnuð með erlendum lántökum.

Við þær aðstæður sem nú hafa skapast á íslenskum hlutabréfamarkaði er rétt að leggja áherslu á fjölþættingu félagsins. Icelandair Group er alþjóðleg samstæða 12 dótturfélaga með rekstur um allan heim. Tekjur koma frá mörgum landsvæðum og frá ólíkum þjónustuþáttum og einungis um 25% af tekjum samstæðunnar eru í íslenskum krónum. Félagið á viðskipti í mörgum gjaldmiðlum en stærstur hluti veltunnar er í erlendri mynt; evrum, dollurum og tékkneskum krónum. Veikt gengi íslensku krónunnar hefur í heild jákvæð áhrif á gengismun félagsins. Þá hefur eldsneytisverð á heimsmarkaði farið lækkandi á síðustu vikum sem kemur vel við rekstur fyrirtækja félagsins.

Icelandair, stærsta fyrirtækið innan Icelandair Group,  nýtur þess nú að fyrr á árinu var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða í áætlunarfluginu í ljósi minnkandi eftirspurnar og hækkandi eldsneytisverðs. Dregið var úr framboði um 15% og kostnaður í rekstri lækkaður. Á haustmánuðum hefur verið unnið að markaðssókn fyrir Ísland erlendis í ljósi gengislækkunar og enn frekar dregið úr framboði á heimamarkaði.

Rekstur Travel Service í Tékklandi, næst stærsta fyrirtækisins í samstæðunni, hefur gengið vonum framar á árinu. Travel Service hefur tekist að nýta sér sóknarfæri sem skapast hafa í kjölfar gjaldþrota félaga á leiguflugsmarkaði, og mun þannig fjölga um tvær flugvélar í flota sínum fyrir áramót. Sterk staða tékknesku krónunnar hefur einnig haft jákvæð áhrif á reksturinn.”

 Icelandair Group mun birta uppgjör þriðja ársfjórðungs 2008 18. nóvember nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK