Þúsund milljarða vöxtur útlána Glitnis

Reuters

Útlán Glitnis banka til viðskiptavina jukust um 1.000 milljarða króna á einu ári eftir að FL Group og tengdir aðilar urðu ráðandi í bankanum. Um mitt ár 2007 voru heildarútlán Glitnis til viðskiptavina 1.571 milljarður króna. Í lok júní síðastliðins voru heildarútlánin 2.548 milljónir króna og höfðu því aukist um 60 prósent á einu ári.

Morgunblaðið skýrði frá því í gær að samkvæmt lánabókum Glitnis hefðu FL Group og þrír af stærstu eigendum félagsins fengið rúma 80 milljarða króna að láni hjá Glitni í lok síðasta árs. Af 15 stærstu skuldurum fyrirtækjasviðs Glitnis í upphafi þessa árs eru flestir tengdir FL Group með einhverjum hætti.

Á seinni hluta ársins 2006 fóru lánalínur íslenskra banka að lokast tímabundið. Stjórn og stjórnendur Glitnis ákváðu á þeim tíma að stefna bankans yrði að halda útlánum í skefjum til að styrkja lausafjárstöðu hans. Útlánin jukust enda lítið sem ekkert frá þriðja ársfjórðungi 2006 og fram á vorið 2007. Í apríl breyttist sú stefna þó skyndilega.

Mikil ólga hafði verið í eigendahópi Glitnis á fyrri hluta ársins 2007 þar sem tvær fylkingar tókust á um völdin í bankanum. Annars vegar var hópur tengdur Karli Wernerssyni, Einari Sveinssyni og Milestone. Hinn hópurinn var FL Group og aðilar tengdir eigendum þess félags. Á aðalfundi Glitnis í febrúar 2007 sótti FL-hópurinn það mjög hart að fá stjórnarformennsku í bankanum í krafti stórs eignarhluta síns, en félagið átti þá um þriðjung í Glitni.

Samkomulag náðist á endanum um að Einar Sveinsson, sem sat fyrir í stjórn fyrir Milestone-hópinn, héldi þeirri stöðu áfram gegn því að FL Group fengi fjóra af sjö stjórnarmönnum.

Í kjölfarið héldu FL Group og Jötunn Holding, sem er í eigu Baugs, Fons og Toms Hunter, áfram að kaupa hluti í Glitni. Átökin stigmögnuðust við það og í byrjun apríl ákváðu Milestone-hópurinn og önnur félög tengd þeim Karli og Einari að selja eignarhlut sinn í Glitni. Á einni helgi skipti fjórðungur hlutafjár í bankanum um hendur fyrir 110 milljarða króna. Á meðal kaupenda var Jötunn Holding.

Samfara hinum miklu breytingum á eignarhaldi Glitnis var boðaður nýr hluthafafundur í lok apríl til að kjósa nýja stjórn. Þegar kom að þeim fundi átti FL Group 31,97 prósent í Glitni og Jötunn Holding 6,85 prósent. Þorsteinn M. Jónsson var kjörinn stjórnarformaður. Þorsteinn er á meðal eigenda Materia Invest sem var einn stærsti eigandinn í FL Group á þessum tíma.

Einnig þótti nauðsynlegt að gera breytingar á stjórn Glitnis og Bjarni Ármannsson vék fyrir Lárusi Welding sem forstjóri eftir 10 ára starf. Í kjölfarið hættu fjórir lykilstjórnendur til viðbótar störfum fyrir bankann.

Heimildir Morgunblaðsins herma að FL Group-hópurinn hafi talið Glitni vannýttan banka. Hann vildi því auka umsvif bankans mjög snöggt og stækka með því efnahagsreikning Glitnis. Nýjum stjórnendum bankans var falið að ýta þessari stefnu úr vör.

Í kynningu á níu mánaða uppgjöri Glitnis á árinu 2007 kemur þessi nýja stefna vel fram. Þar er glæra sem kölluð var „back on track“ og sýnir að útlán bankans hafi aukist um 215 milljarða króna á einum ársfjórðungi. Í lok ársins höfðu útlánin aukist um 400 milljarða króna frá því sem var um mitt árið. Mesti vöxturinn á útlánabókum Glitnis varð síðan á fyrstu þremur mánuðum ársins í ár þegar útlánin jukust um 542 milljarða króna.

Vert er að taka fram að veiking krónunnar á þessu tímabili stækkaði útlánasafnið töluvert en þó var raunvöxtur útlána hátt á annað hundrað milljarða króna. Í lok fyrsta ársfjórðungs 2008 höfðu útlán Glitnis því vaxið um tæpa 1.000 milljarða króna á innan við einu ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK