11% atvinnuleysi í byrjun næsta árs

Seðlabankinn spáir því, að atvinnuleysi verði mest 11% á fyrsta fjórðungi næsta árs og haldist hátt lengur en spáð var í nóvember. Atvinnuleysi sé þegar töluvert meira, en bankinn spáði í nóvember.

Í desember var skráð atvinnuleysi 4,8% og áætlað er að meðalatvinnuleysi í janúar verði 6,4-6,9%. Segir Seðlabankinn í Peningamálum, að því stefni í að atvinnuleysi á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs verði komið í tæplega 8%, sem sé u.þ.b. 4½ prósentu meira atvinnuleysi en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans.

Seðlabankinn segir að mikil óvissa sé um þróun atvinnuleysis í kjölfar bankakreppunnar, m.a. vegna þess að hlutdeild erlends launafólks hafi aukist mikið á undanförnum árum. Atvinnuleysistölur bendi til þess að hlutfall atvinnulausra með erlent ríkisfang sé u.þ.b. í samræmi við hlutdeild þeirra í þeim atvinnugreinum sem þeir starfa við.

Þá nái efnahagskreppan í heiminum nú í vaxandi mæli einnig til heimalanda innflytjenda. Það dragi úr líkum á því að verulegur hluti  erlendra starfsmanna snúi heim í kjölfar atvinnumissis. Meiri samdráttur í byggingariðnaði en gert var ráð fyrir í síðustu spá gæti einnig skýrt hraðari vöxt atvinnuleysis.

Peningamál

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK