Fréttaskýring: Einkavæðing HS Orku

Orkuver, sölukerfi og þekking Hitaveitu Suðurnesja virðist vera á leið …
Orkuver, sölukerfi og þekking Hitaveitu Suðurnesja virðist vera á leið i einkaeigu innlendra og erlendra aðila. mbl.is

Fyrir liggja drög að því að erlendir aðilar eignist stóran hluta í HS Orku, þann hluta þess sem áður var Hitaveita Suðurnesja (HS) og sér um sölu og framleiðslu. Ef þær áætlanir sem liggja fyrir ganga eftir verða orkuver, sölukerfi og þekking starfsmanna HS Orku að langmestu í eigu annars vegar Geysis Green Energy (GGE) og hins vegar erlendra þróunarfélaga á sviði endurnýjanlegrar orku. HS var skipt upp í tvö félög þann 1. desember síðastliðinn. HS Veitur sjá um orkudreifingu en HS Orka sér um framleiðslu og sölu á orkunni.

Á fimmtudagsmorgun voru lögð fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar drög að samkomulagi bæjarins um sölu á 34,7 prósent hlut hans í HS Orku til einkafyrirtækisins GGE. Greiða á þrettán milljarða króna fyrir hlutinn í HS Orku. Tæpir þrír milljarðar króna verða greiddir í reiðufé, sex milljarðar króna með skuldabréfi til sjö ára auk þess sem Reykjanesbær fær hlut GGE í HS Veitum, fyrrum orkudreifingarhluti HS, en sá hlutur er metin á rúma fjóra milljarða króna. Eftir þessi viðskipti mun GGE eiga 66 prósent í HS Orku. Fyrirtækið ætlar sér þó ekki að eiga svo stóran hlut lengi.

Útlendingarnir koma

Þessi fyrirhuguðu kaup GGE eru nefnilega fjármögnuð með erlendu fjármagni. Heimildir Morgunblaðsins herma að um sé að ræða kanadíska fyrirtækið Magma Energy, en fulltrúar þess hafa verið á landinu að undanförnu. Forsvarsmenn GGE hafa þegar sagt að þeir hyggist selja erlendum samstarfsaðila sínum 10,8 prósent af hlut sínum í HS Orku, án þess að nafngreina hver hann er. Auk þess stendur til að auka hlutafé í HS Orku og bjóða erlenda samstarfaðilanum að kaupa. Við það myndi hluti hans hækka töluvert.

Gætu eignast enn meira

Ef af kaupum GGE verður mun fyrirtækið og erlendi samstarfsaðili þess vera í lykilstöðu innan HS Orku með 66 prósent hlutafjár. Þorri þess hlutar sem verður ekki í eigu þeirra, um 32 prósent, er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (15,6 prósent) og Hafnarfjarðar (15,4 prósent). Það hefur reyndar verið á reiki hvort að Hafnarfjörður eða OR haldi á þeim hlut sem Hafnfirðingar eru skráðir fyrir. Að því verður komið hér að neðan. Líkt og greint var frá í morgun voru tilboð opnuð í þessa hluti í gærmorgun, en þeir hafa verið í söluferli í um tvo mánuði. Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, hefur staðfest að nokkrar tilboðshugmyndir hafi borist og að það hefðu fyrst og fremst erlendir aðilar sem hafi sýnt hlutnum áhuga. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Magma Energy einnig talið hafa áhuga á að eignast þennan hlut, en fulltrúar fyrirtækisins hafa komið hingað til lands nokkrum sinnum til að kynna sér aðstæður á vegum Capacent Glacier-ráðgjafar, íslensks fyrirtækis sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði orkumála. Því gæti farið svo að nánast allt hlutafé í HS Orku yrði í eigu einkaaðila, það er GGE og erlendra fyrirtækja. Einu opinberu aðilarnir sem ættu hlut, gangi ofangreind kaup eftir, verða Grindavík, Sandgerði, Vogar og og Garður með samanlagt rúmlega eins prósent eignarhlut.

Óvissa með eignarhald á hlut Hafnarfjarðar

Líkt og komið var hér ofar ríkir óvissa um hver sé raunverulegur eigandi á hlut Hafnarfjarðar í HS Orku. OR hafði nefnilega skuldbundið sig til að kaupa 95 prósent af hlutnum á 7,6 milljarða króna eftir miklar hræringar í eigendahópnum sem komu í kjölfar þess að íslenska ríkið ákvað að einkavæða sinn hlut í HS í upphafi árs 2007. Vorið 2008 kváðu samkeppnisyfirvöld hins vegar upp þann úrskurð að OR væri óheimilt að eiga meira en tíu prósent í HS og forsvarsmenn OR litu svo á að sá úrskurður hefði ógilt kaupsamninginn við Hafnfirðinga, en virði hlutarins hafði þá fallið mikið í verði samkvæmt óháðu verðmati sem var framkvæmt fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þessu voru Hafnfirðingar ósammála og málið fór fyrir dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi síðan þann dóm í mars síðastliðnum að OR væri skylt að kaupa hlutinn. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Forkaupsréttur til staðar

Forkaupsréttur er á öllum viðskiptum með hluti í HS Orku. Í honum felst að öðrum eigendum gefst kostur á því að bjóða sama verð og samþykkt hefur verið að selja á ef einhver út eigendahópnum vill selja hluta eða allan sinn hlut í fyrirtækinu.

Fulltrúar Reykjanesbæjar og GGE í stjórn HS Orku lögðu fram tillögu á stjórnarfundi í fyrirtækinu í desember síðastliðnum um afnema þennan forkaupsrétt. Á þeim tíma var það gert til að reyna að liðka um fyrir að aðilarnir tveir gætu átt sambærileg viðskipti og þeir ætla að eiga núna. Það er að Reykjanesbær dragi sig út úr HS Orku en auki við sig innan HS Veitna og fái þess utan vel greitt fyrir vistaskiptin. Tillögunni var á þeim tíma vísað frá eftir töluverða andstöðu minni hluthafa við hana.

Auðlindir og lönd undir

Í samkomulagsdrögum milli Reykjanesbæjar og GGE er einnig gert ráð fyrir því að bærinn kaupi auðlindir og landssvæði HS Orku á 840 milljónir króna. Fyrst og síðast er um að ræða löndin sem liggja undir og í kringum Svartsengis- og Reykjanesvirkjun. Á móti mun Reykjanesbær fá auðlindagjald sem getur numið allt að 65 milljónum króna á ári og þær auðlindir sem áður tilheyrðu Hitaveitunni vera áfram í opinberra eigu, en þær tilheyra í dag HS Orku.

Minni hluthafar í HS Orku, sérstaklega Grindavíkurbær, hafa sett sig mjög á móti þessum vistaskiptum. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs bæjarins hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa undrun sinn á yfirlýstum samningsdrögum milli Reykjanesbæjar og HS Orku um kaup á landssvæðum sem tilheyra lögsögu Grindavíkur, en þar á meðal er landið undir Svartsengisvirkjun. Heimildir Morgunblaðsins herma raunar að reynt hafi verið að ná samkomulagi um eignarhald á landssvæðunum frá því í desember en að pattstaða hafi verið uppi í málinu þegar Reykjanesbær ákvað að hefja samningsviðræður við GGE. Það hafi ekki fallið í góðan jarðveg hjá smærri sveitarfélögum á Suðurnesjum.

Afar flókið eignarhald

GGE, sem að öllum líkindum mun verða ráðandi eigandi innan HS Orku innan skamms, gangi fyrirætlanir þess eftir, er einkafyrirtæki sem er að mestu í eigu Atorku (41 prósent) og Glacier Renewable Energy Fund (40 prósent), en það er sjóður í umsjón Íslandsbanka. Atorka er sem stendur í greiðslustöðvun og heimildir Morgunblaðsins herma að samkvæmt endurskipulagningaráætlun félagsins munu kröfuhafar þess eignast það að fullu. Stærstu kröfuhafar Atorku eru skilanefndir Glitnis og Landsbankans.

Glacier Renewable Energy Fund er í 47 prósent eigu Íslandsbanka. Stoðir, sem áður hétu FL Group, eiga síðan 37,5 prósent og Nýi Landsbankinn á líka hlut í sjóðnum. Stoðir luku nýverið við nauðsamninga við kröfuhafa sína sem fela í sér að þeir muni eignast félagið að fullu. Stærsti kröfuhafi þess er skilanefnd Glitnis. Því virðist sem svo að þorri eigenda GGE séu annaðhvort starfandi íslenskir bankar eða skilanefndir þeirra íslensku banka sem hrundu í október.

Auk þess á Íslandsbanki handveð í öllum hlutum GGE í bæði HS Orku og HS Veitum. Fulltrúar bankans sitja einnig í stjórn GGE. Því virðist bankinn vera í lykilstöðu til ákveða hvað framtíð GGE ber í skauti sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK