Gengistrygging ólögleg verðtrygging

Gengistrygging útlána felur í sér eina tegund verðtryggingar, að mati Eyvindar G. Gunnarssonar, lektors við Lagadeild Háskóla Íslands. Sagði hann á fundi, sem haldinn var á vegum Orators, félags laganema við HÍ, að samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu sé óheimilt að verðtryggja lán með öðrum hætti en með tilvísun til neysluverðsvísitölu eða hlutabréfavísitalna.

Lögin setji samningsfrelsi takmörk og þar með megi skilja þau þannig að önnur tegund verðtryggingar sé bönnuð.

Segir hann einnig að skipti erlend mynt aldrei um hendur verði ekki litið á lánið sem svo að það sé í erlendri mynt. Sé lánið veitt í íslenskum krónum og greitt í krónum sé um lán í krónum að ræða. Því falli gengistryggð lán undir áðurnefnd lög og brjóti því gegn þeim.

Segir hann að lögin mæli jafnframt fyrir um hvernig leiðrétta beri lánasamninga, sem brjóti í bága við þau. Ákvæði um gengistryggingu beri að breyta í venjulega verðtryggingu miðaða við neysluverðsvísitölu frá undirritun samningsins.

Málið flóknara

Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður hjá Landslögum, segir málið flóknara en að Eyvindur láti út fyrir að vera. Til dæmis sé í gjaldþrotalögum gert ráð fyrir ákveðinni gengistryggingu. Skuldir þrotabús í erlendri mynt beri að umreikna í krónur. Þá sé alls ekki ljóst að með setningu laga um vexti og verðtryggingar árið 2001 hafi verið meiningin að draga úr heimildum til að gengistryggja lán.

Þá verði einnig að horfa til þess að töluverð venja hafi skapast undanfarin ár hvað varði gengistryggingu. Þúsundir samninga hafi verið gerðir undir eftirliti opinberra aðila, sem ekki hafi gert við þá athugasemdir.

Hins vegar geti aðrar lagareglur leitt til þess að ákvæðum sumra gengistryggðra lána verði breytt af dómstólum. Til dæmis geti ákvæði samningalaga um forsendubrest leitt til breytinga á samningum. Sagði hann að það ætti ef til vill frekar við um styttri lán en lengri. Í gengistryggðum lánum felist mikil áhætta og höfuðstóll og greiðslubyrði geti breyst mikið á stuttum tíma. Hins vegar hvað varði lengri fasteignalán sýni reynslan að til lengri tíma séu gengistryggð lán hagstæðari en innlend krónulán.

Umræðan og væntingar almennings um úrlausn þessara mála verði hins vegar að vera raunhæfar. Ekki sé ábyrgt að lofa neinni niðurstöðu á þessu stigi málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK