Rök fyrir frekari vaxtalækkun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir því að verðbólga, án áhrifa neysluskatta, við markmið bankans í lok árs og komin nokkuð undir það snemma á næsta ári. Verðbólgumarkmið bankans eru 2%. Verðbólguvæntingar hafa einnig lækkað verulega að undanförnu. Vextir lækkuðu um 1% í dag.

Minni verðbólga, lægri verðbólguvæntingar, sterkara gengi krónunnar og horfur á hraðari hjöðnun verðbólgu en áður var reiknað með gefa færi á meiri vaxtalækkun en að jafnaði undanfarið ár, að því er segir í Peningamálum Seðlabankans sem komu út í dag.

Á móti kemur að ekki er enn ljóst í hve miklum mæli nýleg verðbólguhjöðnun endurspeglar skammtímaþætti. Þá verður að hafa í huga að þegar að því kemur að losa um gjaldeyrishöft verður áhættuveginn vaxtamunur á milli Íslands og útlanda að styðja nægilega við krónuna. Hins vegar er enn nokkur óvissa um hvenær hægt verður að byrja að leysa höftin. Því er erfitt að fullyrða hvað fyrirhuguð losun hafta felur í sér fyrir vaxtastefnuna næstu mánuði.

„Hjaðnandi verðbólga og verðbólguvæntingar hafa leitt til þess að raunvextir Seðlabankans hafa hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun. Þótt efnahagsbati virðist hafinn er hann enn sem komið er veikur og horfur eru á að slaki verði til staðar í þjóðarbúskapnum á næstu árum."

Viðskiptavegið meðalgengi krónunnar hefur styrkst um rúmlega 2½% frá síðasta fundi nefndarinnar í júní og um rúmlega 2% gagnvart evru, án viðskipta Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Á sama tíma hefur vaxtaálag á skuldbindingar ríkissjóðs lítið breyst.

Gjaldeyrishöftin, þróun viðskiptajafnaðar og -kjara, ásamt vaxtamun við helstu viðskiptalönd Íslands halda áfram að styðja við gengi krónunnar. Gengi hennar á aflandsmarkaði hefur einnig styrkst, án þess að það megi rekja til aukinnar sniðgöngu gjaldeyrishafta. 

Horfur eru á að verðbólgan hjaðni heldur hraðar á þessu ári en gert var ráð fyrir í síðustu Peningamálum. Kemur þar m.a. til töluvert sterkara gengi og minni verðbólguvæntingar. Einnig höfðu sumarútsölur meiri áhrif til lækkunar verðlags en á undanförnum árum og óvíst hvort áhrifin gangi að fullu til baka nú þegar nýjar vörur eru keyptar inn á hagstæðara gengi.

Spáð er að verðbólga verði við verðbólgumarkmið Seðlabankans á öðrum fjórðungi næsta árs en að verðbólga án áhrifa breytinga óbeinna skatta verði við markmið í lok þessa árs sem er heldur fyrr en spáð var í maí.

Meðaltal verðbólgu 5,7% í ár

Meðalverðbólga á árinu 2010 verður 5,7% ef þessi spá gengur eftir, samanborið við 12% meðalverðbólgu á síðasta ári. Þetta er um hálfri prósentu minni verðbólga en gert var ráð fyrir í maí.

Nokkur óvissa er um skammtímaverðbólguhorfur, ekki síst vegna mikilla hækkana undanfarið á heimsmarkaðsverði olíu- og hrávöru, einkum verði á hveiti. Útlit er fyrir að matvælaverð hækki talsvert á komandi mánuðum. Töluverð óvissa er um hversu mikil verðlagsáhrifin verða og hversu hratt þau koma fram.

Á móti kemur að gengi krónunnar gæti hækkað meira en gert er ráð fyrir í spánni.

Peningamál Seðlabanka Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK