Vinnufyrirkomulag sem gilt hefur í áratugi

Hagar segja, að vinnufyrirkomulag, sem Samkeppniseftirlitið telur brjóta gegn samkeppnislögum, hafi verið í gildi milli smásala og kjötbirgja í áratugi. Hagar hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna samskipta við 8 helstu kjötbirgja landsins um merkingu smásöluverðs á kjöti. Greiðir fyrirtækið 270 milljónir króna í sekt.

Í tilkynningu frá Högum segir, að kjötframleiðendum beri skylda til að merkja vörur sínar með pökkunardegi, síðasta söludegi og þyngd.  Samhliða þessum merkingum hafi framleiðendur merkt kjötvörur, ýmist með leiðbeinandi smásöluverði eða smásöluverði, sem smásali hafi ákveðið.  Í þessu hafi falist mikið hagræði fyrir báða aðila og þægindi fyrir neytendur. 

Samkeppniseftirlitið hafi hins vegar gert athugasemd við þessa aðferðarfræði sem tíðkast hefur og telji hana brjóta í bága við 10. grein samkeppnislaga, þar sem hún feli í sér „lóðrétt samráð" um ákvörðun smásöluverðs. 

„Framangreint fyrirkomulag um verðmerkingar á kjötvörum hefur tíðkast a.m.k. frá sjöunda áratug síðustu aldar.  Við stofnun Bónus árið 1989, hafði fyrirtækið frumkvæði að því að veita afslátt frá leiðbeinandi smásöluverði kjötframleiðanda, sem tíðkast hafði á matvörumarkaði.  Bónus hefur í þessu tilliti ávallt verið í forystu, þegar kemur að veittum afslætti til viðskiptavina sinna.  Árið 2009 veitti Bónus afslátt til viðskiptavina sem nam 1.900 milljónum króna, frá merktu smásöluverði.  Þau samskipti sem um ræðir leiddu því ekki til hærra verðs til neytenda, heldur voru fyrst og fremst vinnulag á markaði sem tíðkast hafði um árabil," segir í tilkynningu Haga.

Stjórn Haga hefur ákveðið að óska eftir leiðbeiningum frá Samkeppniseftirlitinu varðandi aðrar vörur en kjötvörur, en það tíðkist víða að framleiðendur formerki vörur með leiðbeinandi smásöluverði, s.s. framleiðendur osta og útgefendur tímarita og dagblaða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK