Fréttaskýring: Innlánaeigendum mismunað af hálfu tryggingasjóðs

Frá Nýhöfn í Kaupmannahöfn
Frá Nýhöfn í Kaupmannahöfn mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar danski fjárfestingabankinn Capinordic Bank varð gjaldþrota í febrúar á þessu ári tryggði danska ríkið allar innistæður í danska hluta starfseminnar að fullu. Capinordic Bank var einnig með starfsemi í Svíþjóð, en þar ábyrgðist hinn danski tryggingasjóður innistæðna aðeins innistæður upp að 50.000 evrum. Raunar ábyrgðist danski tryggingasjóðurinn aðeins innistæður upp að 50.000 evrum í Danmörku, en sérstök eining um fjármálastöðugleika sem Danir komu á fót haustið 2008 sá um það sem var umfram 50.000 evrur. Sænskar innistæður nutu hins vegar ekki sama forgangs og hinar dönsku.

Móðurfélag greiddi upp í topp

Capinordic Bank var í eigu fjárfestingafélagsins Capinordic A/S, sem á höfuðstöðvar sínar í Danmörku. Capinordic hefur nú breytt um nafn og heitir NewCap A/S, en félagið er skráð á hlutabréfamarkað. NewCap veitti ábyrgð til innistæðueigenda í Svíþjóð vegna þeirra fjárhæða sem danski innistæðutryggingasjóðurinn tryggði ekki. Capinordic gaf engu að síður út ákveðna hámarksábyrgð á slíkri tryggingu. Þannig tryggir NewCap ekki innistæður umfram 50.000 evrur um meira en samanlagða upphæð sem samsvarar 75 milljónum danskra króna. Jafnframt kom fram í tilkynningu frá danska fjármálaeftirlitinu, daginn sem Capinordic Bank skilaði inn bankaleyfinu, að frá tryggingu danska tryggingasjóðsins á evrunum 50.000 skyldu dragast skuldbindingar viðkomandi innistæðueigenda hjá bankanum. Sá sem átti þannig tíu evra innlán hjá Capinordic, en skuldaði bankanum á sama tíma fimm evrur, fékk aðeins fimm evrur tryggðar.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá NewCap í gær var ákveðið að tryggja innistæður sænskra innlánaeigenda umfram 50.000 evrur, vegna þess að NewCap hefur ennþá viðskiptahagsmuni í Svíþjóð þó svo að Capinordic Bank sé kominn í þrot.

Banki hinna auðugu

Þegar fjallað var um gjaldþrot Capinordic Bank í dönskum fjölmiðlum fyrr á þessu ári var bankinn víða kallaður „velhaverbank,“ eða banki þeirra sem eiga mikið. Capinordic Bank lenti í vandræðum snemma á þessu ári og í janúar var veittur frestur til 3. febrúar til að koma eiginfjárhlutfalli bankans í samt lag. Sá frestur var síðan framlengdur til 10. febrúar, en þann dag skilaði Capinordic Bank inn bankaleyfi sínu til danska fjármálaeftirlitsins. Það var hins vegar hinn 4. febrúar sama ár sem móðurfélagið, Capinordic A/S, hafði lýst yfir fullri tryggingu á innistæðum í sænska hluta bankans, og sú yfirlýsing heldur enn í dag. Fram kom á Politiken fyrr á árinu að kostnaður danska ríkisins vegna falls bankans næmi yfir 700 milljónum dollara.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK