Lántaka síður nauðsynleg

Greiningardeild Arion telur líklegt að skuldabréfaútgáfa verði minni er gert …
Greiningardeild Arion telur líklegt að skuldabréfaútgáfa verði minni er gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Ómar Óskarsson

Gert er ráð fyrir að hreinn lánsfjárjöfnuður verði jákvæður um sem nemur 25,5 milljörðum króna í fjárlagafrumvarpinu 2015 og er það töluvert betri niðurstaða en undanfarin ár. Til samanburðar var hreinn lánsfjárjöfnuður neikvæður um 18 milljarða króna á þessu ári. 

Í ljósi þess þykir athyglisvert að engu að síður sé áætlað að tekin lán muni nema 80 milljörðum króna, sem er umtalsverð skuldabréfaútgáfa í ljósi þess að lánsfjárjöfnuðurinn er orðinn jákvæður. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag.

Þar segir að ýmsir þættir sem auki líkurnar á að útgáfa ríkissjóðs á innlendum fjármálamörkuðum geti orðið nokkuð undir 80 milljörðum, jafnvel sem nemur tugum milljarða króna, og að útgáfan verði nær 50 milljörðum á næsta ári. „Með því móti yrði hrein útgáfa af ríkisbréfum lítil sem engin og væri því að dragast saman milli ára. Með batnandi afkomu ríkissjóðs milli ára dregur úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og má því áætla að hrein útgáfa ríkisbréfa haldi áfram að dragast saman á komandi árum,“ segir í markaðspunktum Arion banka.

Varfærin áætlun um arðgreiðslur

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir annars vegar 25,5 milljarða króna hreinum lánsfjárjöfnuði og hins vegar afborgunum að fjárhæð 103 milljörðum króna. „Samkvæmt því mætti áætla að útgáfuþörf ríkissjóðs á næsta ári verði um 77,5 milljarðar þar sem jákvæður lánsfjárjöfnuður dregur úr þörf ríkissjóðs til lántöku. Það rímar einnig við áætlanir fjárlagafrumvarpsins um 80 milljarða króna tekin lán á árinu.“

Þá segir að einn stór liður, sem skiptist í tvo hluta, hafi mikil áhrif á sjóðstreymi ríkissjóðs; Annar hlutinn sé eignasala á 30% hlut í Landsbankanum og hinn afborganir af skuldabréfinu RIKH 18 sem gefið var út til fjármögnunar á nýju bönkunum. „Breytingarnar tvær vega hvor á móti hinni og hafa því ekki áhrif á heildarútgáfu ríkissjóðs árið 2015. Að frátalinni eignasölunni og afborgunum af RIKH 18 má áætla að undirliggjandi hreinn lánsfjárjöfnuður sé neikvæður um 10 milljarða og að 63 milljarða krónaafborganir falli til á næsta ári.

Í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir um 7 milljarða króna arðgreiðslum frá Landsbankanum á næsta ári en í fyrra námu arðgreiðslur tæplega 10 milljörðum og í ár tæpum 20 milljörðum. „Áætlun fjárlagafrumvarpsins um arðgreiðslur Landsbankans er því frekar varfærin og eykur það líkur á að arðgreiðslur á næsta ári verði umfram væntingar.“

Einnig segir að ekki sé ólíklegt að ríkissjóður nýti innlendar innstæður til að greiða hluta af innlendum afborgunum og nýti gjaldeyrisinnstæður fyrir afborganir í erlendri mynt. Þá var lausafjárviðmið ríkissjóðs rýmkað í síðustu útgáfu af stefnu í lánamálum ríkisins en þar var 80 milljarða lausafjárviðmið fært niður í 60-70 milljarða króna viðmið. 

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK